145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni er, eins og þeim sem hér stendur og mörgum öðrum, umhugað um almannatryggingar, ellilífeyri, örorkubætur og því um líkt. Minni hlutinn fer fram með sameiginlegar breytingartillögur og við erum algjörlega sammála um að nú sé tími til þess að beita afturvirkni alveg eins og við þingmenn sjálfir höfum fengið að njóta í kjölfar ákvörðunar kjararáðs um kjör okkar.

En eitt af því sem alltaf hefur þvælst mikið fyrir mér í allri umræðu um almannatryggingar og oft þær skammarlega lágu upphæðir sem ellilífeyrisþegar og örorkubótaþegar þurfa að lifa við er hversu flókið það er að komast að því hvað viðkomandi hefur rétt á. Ég vil meina að þetta sé eitt af stærstu vandamálum sem aftri okkur í raun frá því að bæta kerfið með því að auka fjármagn, þótt ég sé vissulega hlynntur því líka og stend auðvitað að þessum tillögum ásamt restinni af minni hlutanum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem mér finnst mikilvægt að við tæklum og vinnum að því að bótaþegar og ellilífeyrisþegar, sem ég vil nú ekki meina að séu það sama, hafi einhver tækifæri til þess að komast að því hvort þeir fái rétt greitt út, þeir hafi tækifæri til þess að komast að því hvaða valmöguleikar séu í stöðunni, vegna þess að það virðist ekki vera skýrt. Sömu einstaklingar kvarta oft undan því að Tryggingastofnun ríkisins sýni þeim ekki nægan skilning eða leiðbeiningu eða hvað sem er. Burt séð frá því hvort það er spurning um viðhorf eða annað þá stendur það eftir að fólk þekkir ekki rétt sinn. Það skilur oft ekki hvers vegna það fær jafn lítið útborgað og raun ber vitni. Í því sambandi nefni ég að ég hef margsinnis reynt að komast til botns í einhverjum ákveðnum þáttum almannatryggingakerfisins og það er alltaf mjög flókið, jafnvel afmarkaðir þættir, hvað þá kerfið í heild sinni. Er þetta ekki eitthvað sem við þurfum líka að líta til þegar við ætlum að bæta hag notenda almannatryggingakerfisins?