145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég treysti því að forseti noti nú hina víðfrægu bjöllu Alþingis til að vekja hina ráðherrana af sínum sæta svefni. Mér finnst aðallega brýnt fyrir mína parta að fá hér í hús hæstv. menntamálaráðherra. Ég er með ræðu á eftir einum þingmanni og ætla að fjalla sérstaklega um stöðuna hjá Ríkisútvarpinu og ég bara fer fram á það og krefst þess að hæstv. ráðherra mæti hér í hús og svari fyrir þá stöðu sem upp er komin með RÚV.

Ég hef heyrt það í dag að ekki standi til að afgreiða frumvarp frá ráðherranum. Ég vil bara fá að heyra það beint frá hæstv. ráðherra og ég fer fram á það að hann komi hingað. Ég er hreinlega tilbúin að standa hér undir bjölluhljóm þangað til ráðherra kemur í hús og ætla bara ekkert að færa mig.

(Forseti (ÞorS): Forseti leggur til við þingmanninn að hann yfirgefi ræðustólinn þar sem ræðutíma hans er lokið.)

Ég vil fá svör, hæstv. forseti. Kemur hæstv. ráðherra í hús og hvenær stendur til að ljúka þessum þingfundi? Ég fer ekkert fyrr en ég fæ svör.

(Forseti (ÞorS): Forseti leggur fyrir þingmanninn að yfirgefa ræðustólinn.)

Ég fer fram á það að forseti svari spurningum þingmanna nú þegar og sýni þinginu og þingmönnum virðingu.

(Forseti (ÞorS): Þegar þeir þingmenn sem hafa kvatt sér hljóðs undir þessum lið hafa talað mun forseti svara þeim spurningum sem til hans hefur verið beint.)

Það er gott að vita.