146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Birgis Ármannssonar tel ég rétt að koma hér upp í ræðustól. Það er sannarlega rétt að þegar um er að ræða svo flókin úrlausnarefni sem hér eru í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem er úrvinnsla skýrslu um einkavæðingu á Búnaðarbankanum, ríður á að þingmenn í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gæti orða sinna og séu nákvæmir í orðavali. Það hef ég lagt mig fram um að vera og átti þess vegna í samtali við Fréttablaðið í gær og sagði í því viðtali að ég teldi betur fara á því að einhver annar en hv. þm. Brynjar Níelsson leiddi nákvæmlega þá vinnu vegna þess að hans tengsl væru óheppileg í ljósi viðfangsefnis nefndarinnar.

Ég lagði áherslu á að við hlytum öll að vera sammála um að ekki félli skuggi á störf stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við höfum reynt að vanda okkur í því hingað til og eigum að gera það hér eftir. Orðalagið sem er í fyrirsögn viðtalsins, þar sem orðið vanhæfi er notað, er orð sem ég hef ekki notað og mun ekki nota í þessu samhengi. Það á ekki við í þessu samhengi og ég vil geta þess í ræðustól Alþingis að það er ekki það orð sem ég myndi nota hér og ég hyggst ekki nota það. Ég vil líka geta þess að ég hef átt samtal við hv. þm. Brynjar Níelsson, sem ég hef miklar mætur á, og tel að hann valdi því vel að vera formaður nefndarinnar, en við erum sammála, og meiri hluti nefndarinnar er það, um að betur fari á því að annar þingmaður leiði nákvæmlega þessa vinnu. Niðurstaða nefndarinnar í morgun varð sú að hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson leiði vinnuna til lykta.