146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

meðferð sakamála.

374. mál
[14:41]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áhættan sem helst fylgir því að vera með stafræn gögn er að þau týnist. Þetta er stöðugt mikil áskorun innan stjórnsýslunnar sem er í síauknum mæli að rafvæðast, ef ég má nota það orð, sem ég tel mjög til bóta. Ég held að flestir séu sammála um það. Þá er það aðaláskorun að gögnin týnist ekki. Í þessu tilfelli er það metið hvernig sendingar takist úr spjaldtölvunum inn í lögreglukerfið og hvernig kerfið sjálft er búið. Það er gert einhvers konar áhættumat, ég kann ekki að lýsa því tæknilega hvernig kerfi lögreglunnar er tekið út. Ég geng út frá því að þeir hlutir hafi verið skoðaðir og mér hefur verið tjáð að þetta sé eins og við er að búast með rafræna vistun gagna.

Hvað varðar útfærslu á þessum spjaldtölvum vænti ég þess að menn handriti á spjaldtölvurnar, þannig fer undirritunin fram, hún fer væntanlega fram með penna. Ég veit ekki hvort lögreglumenn þurfi lyklaborð. Þetta eru oft einfaldar skýrslur. Fyrir þá hv. þingmenn sem ekki komast oft í kast við lögin, og ég tala af algjöru reynsluleysi líka, held ég að helst sé um að ræða hraðasektir og slík brot. Skýrslur í þeim málum eru svo sem ekki umfangsmiklar, en það þarf þó að gera þær. Það hefur tvíverknaður falist í því. Það þarf að handpikka þær en nú vænti ég þess að ekki þurfi lengur að slá þær inn heldur verði hægt að skrifa þær með rafrænum hætti. Þetta fullyrði ég með þeim fyrirvara að það kunni að vera að menn fái lyklaborð, en ég a.m.k. með mína tækniþekkingu sá fyrir mér að þetta væri ritað á spjaldtölvurnar.