146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vegabréf.

405. mál
[15:02]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að spyrja á svipaða leið og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson varðandi þetta fyrirkomulag.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Þjóðskrá Íslands er heimilt að gera samninga um vegabréf og framleiðslukerfi fyrir vegabréf til allt að tíu ára.“

Enn fremur segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„… útboð vegna innkaupa á vegabréfum og endurnýjunar framleiðslukerfis fyrir vegabréf.“ — Og svo er farið að tala um leigu á búnaði samhliða þessu útboði.

Mig langar að fá það algjörlega á hreint: Er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ef útboðið fer á þann veg að besta tilboðið verður um að vegabréf verði framleidd erlendis verði það ekki heimilað, að það sé alveg skýrt að vegabréf verði alltaf framleidd á Íslandi? Þetta er mikið þjóðaröryggismál hjá okkur, svo ekki sé talað um þjónustustigið. Í því samhengi vitum við að svarti markaðurinn fyrir vegabréf er mjög umfangsmikill. Dönsk vegabréf hafa t.d. verið að seljast á svörtum markaði fyrir allt að 4.000 dollara og bandarísk fyrir um 2.000 dollara, spænsk fyrir 1.850 dollara, þetta eru tölur sem ég fann til í fréttaflutningi af þessu. Öryggisþættirnir og allt þetta — þetta verður allt saman að uppfylla helstu nútímaskilyrði, ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra í því, en við verðum að skoða áhættugreininguna gagnvart þeim möguleika að þetta yrði framleitt erlendis ef þetta lagaákvæði gæti skilist á þann veg. Auðvitað viljum við passa upp á öryggið í þessu máli.