146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:54]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér undarlegt svar enda var hér sérstök umræða 8. mars um nákvæmlega þetta efni, sem sagt 25 ára regluna, þannig að þetta er greinilega eitthvað sem við þurfum að ræða frekar. Hins vegar svaraði hæstv. ráðherra einfaldlega ekki spurningu minni varðandi það hvaða áhrif þetta muni hafa á lántakendur. Það er það sem hefur verið gegnumgangandi í umræðunni um LÍN, bæði á síðasta kjörtímabili og þessu kjörtímabili, að þegar farið er í eitthvert samráð ...

Í lið 4 segir, með leyfi forseta:

„Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við Lánasjóð íslenskra námsmanna.“

Það er eins og Lánasjóður íslenskra námsmanna sé eina fyrirbærið sem kemur þessu frumvarpi við. Hvernig stendur á því? Af hverju er ekki haft samráð við háskólana, við stúdentafélögin, við framhaldsskólana og þar fram eftir götunum, út af því að þetta kemur þeim líka við.

Ég gagnrýni það alveg sérstaklega og hef óskað eftir svörum frá hæstv. ráðherra. Hvernig má það vera að samráð hafi ekki verið víðtækara? Ég geri mér grein fyrir því að þarna er bara verið að skjóta undir lagastoðum og þar fram eftir götunum, en við erum að tala um mjög sérhæfða námsbraut fyrir fólk sem er komið í mjög sérhæfðar aðstæður. Það er búið að ljúka töluvert mörgum einingum í framhaldsskólum, þetta er í raun vænlegasti kosturinn fyrir það þar sem óbeint er verið að skerða aðgang 25 ára og eldri að framhaldsskólunum, af því að fjárveitingarnar eru með þeim hætti, og það er bara staðreynd.

Ég verð að spyrja: Af hverju var ekki haft víðtækara samráð? Það er verið að beina námsmönnum á þessa braut, í aðfaranám, það er verið að auglýsa það. Það er verið að markaðssetja þetta nám og það kostar. Það kostar hálfa milljón á ári. Ég verð að spyrja: Hvar eru námsmennirnir? Hvar var samráðið við þá?