148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mjög langt, en mig langar að lýsa mikilli ánægju með að málið sé komið þetta langt. Ég held að ekki sé orðum aukið að segja að þetta sé algjört tímamótamál fyrir hagsmuni fatlaðs fólks, sennilega eitt stærsta skref sem við sem löggjafi höfum stigið í þeim efnum um ára- ef ekki áratugaskeið. Þetta er vissulega stór stund og alveg einstaklega ánægjulegt að sjá að málið kemur nú inn á lokaspretti í þinginu og ég veit að til þess hefur verið vandað á öllum stigum. Auðvitað er það búið að eiga sér mjög langan aðdraganda, allt frá því þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, skipaði starfshóp til þess að vinna að endurskoðuninni undir forystu Willums Þórs Þórssonar, sem þegar hefur tekið til máls í dag. Það kom síðan í minn hlut sem þáverandi félagsmálaráðherra að koma með það til þingsins í fyrsta sinn, en þá vannst ekki tími til að ljúka því. Þess vegna er þeim mun ánægjulegra að sjá þá vinnu sem velferðarnefnd þingsins hefur lagt í þetta mál núna í vetur. Mér sýnist að alla vega allt það sem ég hef náð að fara yfir sé til bóta fyrir málið.

Þetta er auðvitað gríðarlega flókið mál enda mjög mikil réttindabreyting fyrir fatlað fólk. Við eigum enn eftir að sjá til lands með hvaða áhrif það hefur. Hér er auðvitað verið að umbylta umhverfi og réttindum fatlaðs fólks í grundvallaratriðum með réttinn til sjálfstæðs lífs að leiðarljósi. Ég er nokkuð viss um að við sjáumst ekkert fyrir í því hvert það leiðir okkur á endanum í þróun og við þurfum að vera mjög vakandi fyrir því sem þing að vera tilbúin að taka þessa lagaumgjörð til endurskoðunar reglulega. Það er mjög ánægjulegt að sjá að nefndin leggur mjög ríka áherslu á það í nefndaráliti sínu. Þetta er ekki endastöðin. Þetta er í raun og veru mikilvægur áfangi á vegferðinni. En við munum þurfa að halda áfram að vinna með þetta mál, meitla það og móta áfram til þess að tryggja að það skili markmiðum sínum. Þetta er mikið gleðiefni.

Ég ætla ekki að fara að eyða tíma í efnislega yfirferð. Mér sýnast flestar þær breytingartillögur sem gerðar eru vera til verulegra bóta og þakka nefndinni eindregið fyrir mjög vandað og gott starf í vinnslu við málið og endurtek: Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá að við erum að komast á endastöð núna með þetta mikilvæga mál.