148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

húsnæðissamvinnufélög.

346. mál
[15:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þetta frumvarp og lýsa stuðningi við það. Frumvarpið hefur það að markmiði að stuðla að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga, þá einkanlega að tryggja að félögin eigi þess kost að velja þá fjármögnun sem þau telja hagstæðasta og henta best á hverjum tíma með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi, að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni.

Það er félögum af þessu tagi afar mikilvægt að eiga greiðar fjármögnunarleiðir. Að því miðar frumvarpið og skapar þeim aukið svigrúm til þess að velja þá fjármögnun sem þau telja hagstæðasta hverju sinni og hentar best, með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi, eins og áður segir.

Ég vil leyfa mér að vekja sérstaka athygli á umsögn sem barst frá Landssambandi eldri borgara sem telur frumvarpið vera mjög til bóta fyrir húsnæðissamvinnufélög. Landssambandið leggur mikla áherslu á að húsnæðissamvinnufélögum sé gert kleift og heimilt að útvega sér lánsfé með þeim hagstæðustu kjörum sem eru í boði hverju sinni, um leið og minnt er á þann tilgang húsnæðissamvinnufélaga að þeir sem svo kjósa velji þann kost í húsnæðismálum þar sem hagstæðust kjör bjóðast til eigin búsetu.

Landssambandið vekur sérstaka athygli á atriði sem ég vil leyfa mér að draga fram, frú forseti, í þessari umræðu, þ.e. að fyrir marga eldri borgara geti það verið góður kostur að kaupa sér búseturétt í húsnæðissamvinnufélagi. Landssamband eldri borgara lýsir því áliti að útborgun í kauprétti sem greitt er með séreignarsparnaði fái skattfríðindi eins og um önnur fasteignakaup væri að ræða. Þau tiltaka sem rökstuðning fyrir því sjónarmiði að það atriði sem þarna er gert að umtalsefni geti vegið ungt þegar eldri borgarar þurfa að leysa sín húsnæðismál.