149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:11]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég dró hér upp kannski að nokkru leyti einfaldaða mynd af þeim meginlínum sem ég þykist sjá í íslenskum stjórnmálum og meginfylkingum sem ég tel að takist á. Auðvitað litaðist lýsing mín örlítið af hugmyndum mínum og hugsjónum og því sem ég tel æskilegt. Þar með er ekki sagt að ég telji að þeir sem eru ósammála mér vilji ekki starfa að þjóðarhag, vilji ekki öðrum vel og vilji ekki heill annars fólks. Það ber ekki að skilja mig þannig, heldur var ég að reyna að draga upp mynd af annars vegar þeirri fylkingu sem aðhyllist félagslegar lausnir og hins vegar þeim sem telja að einstaklingsframtakið sé best til þess fallið að ráða fram úr öllum málum og að (Forseti hringir.) gróðavon einstaklinga og jafnvel misskipting geti komið öllu samfélaginu til góða. Ég tel ekki svo vera en þykist vita að hv. þingmaður geri það.