149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:25]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir einmitt þessa spurningu um fleira en samgöngumál. Mönnum hefur orðið tíðrætt hér um forgangsröðun. Það er mjög skýr forgangsröðun af hálfu ríkisstjórnarinnar og félags- og barnamálaráðherra sem undirstrikast auðvitað í breytingunni á starfstitlinum — ég held að maður þurfi bara tíma til að venjast þessu orði, barnamálaráðherra, en þetta er til í öðrum löndum. Ég held að með þessu sé hægt að undirstrika að það sé mjög mikilvægt að nálgast málefni barna og gera umhverfi þeirra öruggara og betra.

Ég man eftir fyrstu setningunni um markmiðsgreinina í skipulagsmálum í Noregi — nú verð ég að fá að sletta, með leyfi herra forseta — þar sem sagt var að skipulag ætti að vera gott fyrir „barn og unge“, sem sagt gott fyrir börn og unglinga að alast upp. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við búum slíkt samfélag til. Það er akkúrat það sem félagsmálaráðherrann er að gera.

Hvernig innleiðum við alþjóðasáttmála? Við undirritum þá, fullgildum og samþykkjum og förum að vinna eftir þeim. Að lokum getum við síðan sagt að við séum búin að ganga frá öllum lausum endum og búið sé að búa til (Forseti hringir.) þær stofnanir sem þarf að gera. Þá getum við gengið endanlega frá því sem þarf að gera. Ég treysti því að að því sé unnið.