150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Eydís Blöndal (Vg):

Herra forseti. Lög um velferð dýra öðluðust gildi í ársbyrjun 2014. Markmið laganna er m.a. að dýr sem skyni gæddar verur séu laus við hvers lags vanlíðan eða þjáningu. Ákvæðum laganna er einnig ætlað að tryggja að dýr geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli. Ég set spurningarmerki við þennan skilning á hugtakinu velferð, m.a. í ljósi þeirrar meðferðar sem dýrunum er að endingu veitt. Er velferð mín höfð í hávegum þegar litið er á mig sem framleiðsluvöru, þegar mér er slátrað? Ég sætti mig ekki við það.

Það gætir ósamræmis í því hvaða meðferð mannfólk annars vegar og dýr hins vegar eigi skilið. Þetta ósamræmi býr í hinum viðtekna skilningi á sambandi manna og dýra, skilningi sem hefðir okkar og lög byggja á, skilningi sem ég hef persónulega fjarlægst mjög í seinni tíð. Dýr eru skyni gæddar verur, hafa tilfinningar og finna fyrir sársauka. Sömuleiðis er okkur ekki nauðsynlegt að hagnýta þau á einn eða annan hátt. Á þessum tveimur forsendum byggi ég í grunninn afstöðu mína. Við eigum ekki tilkall til lífs dýra. Framleiðsla á lífi þeirra einungis til neyslu, yndisauka eða skemmtunar er grundvallarfrelsissvipting sem ég stend alfarið gegn. Til viðbótar vil ég nefna að þetta tilkall sem við upplifum okkur búa yfir til lífs dýra er birtingarmynd heimsmyndar neyslusamfélags sem ég tel vera rót loftslagsvár, raunar heimsmynd þar sem við teljum okkur hafa vald til þess að vaða yfir jörðina sem og líf annarra, hvort sem það eru dýr eða aðrar manneskjur. Til að ráða við hættuna sem við stöndum frammi fyrir þurfum við að taka fjöldamörg skref til baka frá þessari heimsmynd en það væri efni í aðra ræðu.