150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

betrun fanga.

24. mál
[17:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir að leggja þessa tillögu fram. Hún er mjög mikilvæg, fjallar um það sem hefur verið kallað þar til nýlega betrun fanga en heitir núna meðferðar- og endurhæfingarstefna í fangelsismálakerfinu.

Málefni fanga hafa mikla tilhneigingu til að verða út undan og það eru alveg skiljanlegar ástæður fyrir því. Eðli málaflokksins er þannig að fangar eru fólk sem hefur gert eitthvað af sér og er í fangelsi til að það sé ekki í samfélaginu af einni eða annarri ástæðu. Það breytir því ekki að það hvernig við tökum á fangelsismálum hefur allt að segja um það hvernig samfélag við byggjum upp, bæði þegar fanginn er kominn úr fangelsi og sömuleiðis hvernig það lítur út almennt. Þess vegna er mikilvægt að við hættum þeim hugsunarhætti sem ég veit að er ráðandi, að einhvern veginn sé í lagi að sleppa föngunum þegar talað er um geðheilbrigði, menntun eða því um líkt. Við verðum að líta á þennan hóp eins og aðra samfélagsborgara, (Forseti hringir.) hann hefur ekki bara réttindi heldur eru það hagsmunir okkar allra og samfélagsins alls að við komum vel fram við þetta fólk og hjálpum því aftur út í lífið. Það kostar peninga, það kostar tíma og það kostar meðaumkun með stöðu þeirra.