150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar bara að gefa hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur tækifæri til að leiðrétta sig varðandi ummæli hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Það kemur fram í færslu hans á Facebook um þennan fund að honum fannst óþægilegt að fara á hann með lobbíistum, eins og hann segir. Þetta kom fram í fjölmiðlum, m.a. í frétt á DV um það mál. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég endurtek, það er ekkert „að“ því að þingmenn hitti og tali við fólk. Það getur hins vegar varðað samskipti við lobbíista sem eiga að vera skráð og upplýst …“

Það er það sem hann var að biðja um, það var það sem var ekki gert og það fannst honum óþægilegt. Það er það sem lögin segja að eigi að vera gert, alla vega þegar kemur að framkvæmdarvaldinu og eðlilegt að það eigi líka við um þingmenn, sér í lagi þar sem á þessum fundi, sem var ekki skráður og ekki skráð hverjir mættu á, var verið að ræða um þingmál sem átti að vera á leiðinni inn í þingið.