151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[15:48]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég varði vissulega nokkrum tíma ræðu minnar í að fjalla um stjórnlagaráð og það sem kom út úr vinnu stjórnlagaráðs. Við þingmenn Samfylkingar og Pírata höfum raunar lagt fram sem breytingartillögu við það frumvarp sem við ræðum hér það auðlindaákvæði sem stendur eftir úr vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við tillögur stjórnlagaráðs. Ég hélt þessu á lofti vegna þess að þetta er sú leið sem ég hefði viljað sjá. Ég hefði viljað sjá haldið í heiðri því ferli sem hrundið var af stað á sínum tíma. Hv. þingmaður vék að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki hefur tekist að bregðast við enn með fullnægjandi hætti. Á hv. þingmanni var að skilja að honum hafi þótt ástæðulaust og þyki ástæðulaust að bregðast sérstaklega við útkomunni úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og það held ég að flestum sé kunnugt. En svona til samanburðar og upprifjunar má geta þess að þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi um Brexit var sams konar þjóðaratkvæðagreiðsla og var líka ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. En það hvarflaði ekki að nokkrum manni þar í landi að hunsa niðurstöður þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu hversu heimskulegar sem þeim þóttu þær niðurstöður vera.