152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[16:59]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir hans andsvar og spurningu. Mér þykir afar vænt um þessa spurningu. Það er rétt, ég hef starfað sem sálfræðingur í meira en 30 ár og var um tíma einmitt með námskeið fyrir starfshóp Landspítalans um vellíðan í starfi og bara allt er viðkemur starfsánægju. Ég er veit að þetta er mjög stór starfsmannahópur en það skiptir svo miklu máli fyrir fólkið sem vinnur þessi álagsmiklu störf — gleði og sorgir fylgja þessu starfi; í einu herberginu er að fæðast barn og í næsta herbergi er kannski einhver að deyja, þannig að þarna eru gríðarlega tilfinningasveiflur sem eiga sér stað í þessu starfi — að borin sé virðing fyrir starfsfólkinu þannig að það upplifi að verið sé að hlúa að því á öllum sviðum, fyrir utan það að við viljum sjá góð laun og umbun og að það sé ekki of mikið álag heldur bara eitthvað eðlilegt sem manneskja getur þolað til lengdar. Auðvitað getum við öll tekið á okkur tarnir en síðan þarf að koma hvíld. Þetta þarf að vera allt samkvæmt kjarasamningum og því sem við þekkjum þar, en líka að það sé hlustað og þau finni tengingu við yfirstjórnina, að yfirstjórnin viti hvernig okkur á gólfinu líður, komi til okkar, það sé talað saman, leiti til okkar um samráð varðandi svo ótal marga hluti á svona stórri stofnun. Þetta er svo margslungið. Á þeim vinnustað þar sem þetta er ekki svona eru miklu meiri líkur á að það skapist neikvæð hegðun, baktal, einelti og allt slíkt. Ég gæti talað hérna í marga klukkutíma um eineltismál vegna þess að það er búið að vera eitt af mínum sérfræðisviðum sem sálfræðingur en ég sé að það verður að bíða betri tíma nema ég komi aftur í andsvar.