131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[12:17]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hæstv. umhverfisráðherra reifaði frumvarpið við 1. umr. lagði ég fram spurningar til hennar um meðferð þess úrgangs sem rekja má til sjávarútvegs, þ.e. veiðarfæra. Fram kom í frumvarpinu að enn er ætlast til þess að sjávarútvegurinn fái, eins og svo oft áður í ýmsum lögum, sérstaka undanþágu. Ég rifjaði þá upp að meira að segja þegar að því kom varðandi nýtingu úrgangs og meðferð úrgangs frá fullvinnsluskipum hefðu menn gengið svo langt að þegar kom að þeim degi sem umrætt ákvæði átti að taka gildi var það einfaldlega fellt úr lögunum til þess að vernda sjávarútveginn. Mér fannst það ekki gott.

Nú er enn og aftur verið að ívilna sjávarútveginum og hjálpa honum til þess í reynd að menga áfram, það er ekki hægt að orða það með öðrum hætti. Nú á að gefa sjávarútveginum möguleika á því sem kallað er frjálsir samningar til að ganga frá málum sínum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hafði sjávarútvegurinn ekki nægan tíma til þess að undirbúa sig undir breytingarnar? Vissi hann ekki af því að þetta var í bígerð, að dagsetningin var að renna upp? Með hvaða hætti á að grípa til aðgerða gegn sjávarútveginum ef september kemur og ekki er enn búið að ganga til frjálsra samninga um þetta eða ljúka málinu?