131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[15:21]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir það að hv. þm. Gunnar Birgisson skuli hafa brugðist við því að ég átti svo sem ekkert von á því að hann gerði það eftir það sem á undan er farið. Ég vona að það verði til þess að starfshættir í menntamálanefnd lagist og skáni og jafnvel að persónulegt samband okkar, milli mín og hv. þm. Gunnars I. Birgissonar, batni líka því að ég hef enga sérstaka löngun til að berast á banaspjót við hv. þingmann.

Það er hins vegar þannig í öllu starfi að þegar það fer fram undir einhvers konar stjórn er það stjórnandinn, í þessu tilviki formaður nefndarinnar, sem verður að haga sér með tilteknum hætti gagnvart þeim sem neyðast til að vera undir hann settir, eða fallast á það eftir því hvernig það er. Hann ber auðvitað ábyrgð á því að starfið í nefndinni gangi vel. Orð mín áðan voru nokkuð hvöss og þau hafa verið það áður eins og ég nefndi í ræðu minni. Ég hef þegar sagt að þau hafi verið of hvöss við hann umræddan þriðjudag en ég óska líka eftir því að hann fari að líta betur á og, eins og segir í vinahópi eiginkonu minnar, fari kannski að vinna í sínum málum hvað þetta varðar.

Ég vil aðeins segja að lokum að ég kannast ekki við það að fulltrúar Samfylkingarinnar og ég höfum komið dónalega fram við þessa rektora og sé enga ástæðu til þess að formaður menntamálanefndar sé að bera hönd fyrir höfuð þeim. Hins vegar hefði heimsókn þeirra átt að standa lengur og ef við hefðum ekki verið að taka sérstakt tillit til þess tíma sem nefndarstörfin fóru fram á hefðum við auðvitað heimtað að inn kæmu reikningsmenn skólanna og skiluðu frekara áliti og rökstuðningi við þær greinargerðir sem hér hafa verið nefndar og eru tættar sundur í umsögnum stúdentanna.