133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

málefni Byrgisins.

[11:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er vægt til orða tekið að þetta mál sé vont fyrir Framsóknarflokkinn. Framsóknarflokknum hefur tekist einhvern veginn að vera undir, yfir og allt um kring í þessu máli. Fyrrverandi og núverandi formaður fjárlaganefndar úr Framsóknarflokknum, fyrrverandi og núverandi félagsmálaráðherra úr Framsóknarflokknum. Meira að segja fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins kemur að málinu meðan það var til húsa undir handarjaðri hans.

Það er ódýr og aumleg málsvörn hjá hæstv. félagsmálaráðherra, eða fulltrúa hans hér, að skjóta sér á bak við það að Alþingi hafi veitt fé til Byrgisins. Það er nefnilega hárrétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að ábyrgðin á þessari framkvæmd er hjá félagsmálaráðuneytinu, er hjá félagsmálaráðherra, því að allt sem gert er í því ráðuneyti og undir því er á ábyrgð ráðherrans. Ráðherrann er jafnsekur hvort sem um beina gjörninga er að ræða eða aðgerðarleysi þegar aðgerða er þörf. Lög um ráðherraábyrgð leggja þetta að jöfnu. Þetta mál verður auðvitað að skoðast í því ljósi. Þarna er meðferð fjármuna í þvílíkum ólestri, og það er á ábyrgð félagsmálaráðherranna, að engu tali tekur. Það þýðir ekki að tala um þau mál af léttúð.

Það er stóráfall ef svona hlutir gerast undir nefinu á Alþingi og eftirlitskerfi þess, Ríkisendurskoðun, og ekki bara einu sinni, heldur árum saman. Að opinberu fé sé sóað með þessum hætti, þó að í hlut eigi virðingarvert og gott verkefni.

Ég verð svo að segja að ég gagnrýni líka þá ráðstöfun núverandi félagsmálaráðherra að fela með flausturslegum hætti næsta trúfélagi málefni þess heimilislausa fólks sem þarna á í erfiðleikum. Hvers vegna eru þessir hlutir ekki skoðaðir betur ofan í kjölinn áður en (Forseti hringir.) tekin er fljótræðisleg ákvörðun um hvernig farið er með málin? Af hverju var ekki settur tilsjónarmaður með starfseminni (Forseti hringir.) og þetta unnið með eðlilegum hætti?