133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:51]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að gera mönnum upp skoðanir, síður en svo. Ég er að reyna að átta mig á stöðunni innan Samfylkingarinnar. Ég er að reyna að átta mig á því hverjir styðja hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og hverjir ekki. Í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni 7. desember 2006 segir:

„Samfylkingin leggur til að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun …“

Tæpum mánuði áður hafði hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, svarað spurningu í Fréttablaðinu sem hljóðar svo:

„Á að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag?“

Hann svaraði spurningunni svona, með leyfi forseta:

„Já, ef ritstjórnarlegt sjálfstæði helst óskert og aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum verður fyrir hendi.“ (ÁÓÁ: Það er ekki …)

Ég hef nú farið yfir það að þessi skilyrði eru uppfyllt, eða það stendur til að uppfylla þau. (ÁÓÁ: Það er ekki nóg.) En ég er ekki að gera mönnum upp neinar skoðanir. Ég er að reyna að upplýsa málið og þá kannski helst viðhorf þingmanna Samfylkingarinnar til þess og þá meginatriðisins í málinu sem er: Hvert á rekstrarformið að vera og hver eru viðhorf hv. þingmanna til þess?

Ég get síðan ekki svarað fyrir afstöðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar eða þeirra framsóknarmanna. Við höfum gengið einhuga, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, í stuðningi okkar við þetta mál fyrir utan það að Kristinn H. Gunnarsson hefur lýst sérsjónarmiðum sínum en ég veit ekki hversu mikla samleið hann á með ríkisstjórnarmeirihlutanum (Forseti hringir.) og Framsóknarflokknum úr þessu.