138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um auðlegðarskattinn aftur. Ég geri satt að segja ekki ráð fyrir því að næstu þrjú árin muni fólk sem á í hreinum eignum um og jafnvel langt yfir eitt hundrað milljónir króna koma sérstaklega á skrifstofur hins opinbera til þess að bera sig upp yfir því. Ég held að það fólk sé í færum til þess að leggja eilítið meira af mörkum eins og kom fram hér í fyrra svari mínu.

Hv. þingmaður spyr síðan um framtíðina og hvort hér sé komið að endamörkum í skattlagningu. Ég held að um það verði að segja að núna hefur verið leitað fanga býsna víða og þessar aðgerðir sem gripið hefur verið til á tekjuöflunarhlið eru, trúi ég, þær umfangsmestu sem ráðist hefur verið í og umfangsmeiri en vænta má að ráðist verði í á komandi árum. Engu að síður er gert ráð fyrir því í áætlun okkar um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum að bæta bæði við tekjum og skera niður útgjöld á næsta ári, þarnæsta ári og árinu þar á eftir. Hversu mikið þarf í þeim efnum mun líka nokkuð ráðast af því hvernig tekjuáætlanirnar ganga eftir, hvernig skattstofnarnir verða og hvort við fáum þær tekjur sem við gerum ráð fyrir. Það verður því að gera ráð fyrir að það þurfi að fara í frekari aðgerðir en þar eru auðvitað ýmsir möguleikar sem full ástæða er til þess að skoða og ég nefni m.a. möguleika sem flokkur hv. þingmanns hefur bent á.