140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

sauðfjárbú.

430. mál
[16:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir svör hans að sinni. Ástæðulaust er að fara út í sértæk tilvik í þessu og halda sig fremur við almenna umræðu sem við höfum báðir gert, frú forseti. Það er engu að síður svo að upp koma reglulega alvarleg dæmi um vanrækslu á sauðfé nokkuð víða um land. Sá sem hér stendur þekkir allmörg dæmi og sum þeirra nánast skelfileg.

Því er mjög umhugsunarvert að gerðar séu minni kröfur til þeirra sem halda sauðfé en til dæmis til þeirra sem halda hund. Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að sauðfjárhald, sauðfjárbúskapur eigi undantekningarlaust að vera starfsleyfisháður rétt eins og annar rekstur hér á landi. Sauðfjárbúskapur er alltént hvað varðar greiðslumarkið hreinn og klár fyrirtækjarekstur og ber að lúta þeim reglum sem eðlilegt er að atvinnugreinar hér á landi almennt lúti.

Því spyr ég hæstv. landbúnaðarráðherra, sem þekkir vel til sveita og sauðfjár enda kominn frá einu besta sauðfjárhéraði landsins ef ekki því besta, hver hugur hans sé til þeirrar spurningar sem er grundvallarspurning: Eiga sauðfjárbú hér á landi að vera háð starfsleyfi? Telur hann brýnt að breyta lögum á yfirstandandi þingi eða komandi þingi í þá veru?