141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:34]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það hefur náðst samkomulag um að ljúka umræðu um þetta mikilvæga mál sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa haft hér og haldið í gíslingu í málþófi í langan tíma. Það er leitt að menn geti ekki náð betur saman um svona mikilvæg atriði. Þetta eru mál sem skipta þetta þing miklu minna máli en til dæmis kynslóðir framtíðarinnar og menn sitja hér og standa og karpa um að það eigi að virkja hér og það eigi að virkja þarna og það eigi að byrja á því á morgun og það eigi að byrja á því hinn daginn og það eigi bara að virkja og virkja þó að 100 megavött af orku séu á lausu í kerfinu sem enginn vill kaupa. Það er ekkert að gera við þessa orku en það á bara að virkja, það á bara að skaffa vinnu fyrir kraftvélar og vörubíla og gröfur og verktakafyrirtæki, bara til þess, af því að mönnum líkar það.

Auðvitað þurfum við að spyrja okkur þessarar spurningar: Til hvers á að virkja? áður en menn fara af stað. Til hvers á að virkja? Hvað ætlum við að gera við rafmagnið? Ætlum við að selja það í jarðstreng til Evrópu og fjórfalda eða fimmfalda þar með raforkuverð innan lands til almennings? Ætlum við að gera það? Sumir segja já. Til hvers á að virkja? Á að halda áfram að fara út í óarðbærustu framkvæmdir efnahagssögunnar á Íslandi með því að virkja til stóriðju? Á að halda því áfram? Vilja menn halda því áfram? Það hefur enginn sjálfstæðismaður svarað því hér, það hefur enginn framsóknarmaður svarað því, það bara á að virkja.

Það hafa komið fram varúðarorð, mjög sterk varúðarorð, um að færa sex virkjunarkosti í biðflokk úr nýtingarflokki. Á að láta náttúruna njóta vafans? Nei, alls ekki, það á ekki að láta náttúruna njóta vafans, við skulum reyna að eyða henni og eyðileggja hana eins hratt og við mögulega getum til að menn komist ekki að því að hugsanlega hefur hún eitthvert gildi í sjálfri sér eða í fegurðarskyni. Við skulum ekki hugsa svoleiðis. Við skulum frekar reyna að græða pening fyrir einhver einkafyrirtæki en að láta náttúruna njóta vafans.

Þetta er ábyrgðarleysi og þeir hafa opinberað algert ábyrgðarleysi sitt hvað varðar umhverfi og náttúru á Íslandi, þingmenn Framsóknarflokksins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins, í þessari umræðu. Sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hvað harðast hefur reynt að grípa hér fram í fyrir mér í ræðustóli í ræðu um rammaáætlun opinberaði sjálf í ræðu algjöra vanþekkingu sína á öllum þáttum málsins, opinberaði það að það bara á að virkja af því — og það skiptir engu máli þó að menn þurfi að fara með rangt mál til að halda slíku fram.

Það hefur verið ömurlegt að fylgjast með málflutningi þessa fólks.

Menn hafa verið að tala um Hólmsárvirkjun við Atley sem var í biðflokki og er áfram í biðflokki. Menn hafa verið að vísa til þess að hinn fátæki Skaftárhreppur þurfi atvinnutækifæri. Það er alveg augljóst í öllum umsögnum og plönum að það verður engin atvinna í Skaftárhreppi af völdum Hólmsárvirkjunar. Það á að tengja orkuna inn á kerfið og flytja hana í burtu. Það verða þarna einhver tímabundin störf á meðan á virkjuninni stendur en síðan verður henni bara fjarstýrt annars staðar. Þetta er virkjun sem er í landslagsheild á landshluta sem er í anddyri Vatnajökulsþjóðgarðs, einstakt landsvæði sem nær alla leið frá Þjórsá og austur á Hornafjörð þar sem er ekki nema ein meðalstór virkjun á öllu svæðinu.

Slík landsvæði hafa engan tilgang og ekkert gildi í augum þeirra sem vilja virkja þarna. Það er algjört aukaatriði, heldur skulum við fara þarna af stað með virkjun sem skapar ekki eitt einasta starf til frambúðar á svæðinu, bara til þess að virkja.

Hvert eru menn að fara? Og svo vísar hér sami þingmaður og hefur talað fyrir þessari virkjun, þingmaður Framsóknarflokksins í kjördæminu, í Hagavatnsvirkjun og fer þar með slíkar rangfærslur að það er með ólíkindum, það hefur aldrei verið sýnt fram á að Hagavatnsvirkjun mundi stöðva sandfok á svæðinu. Og helstu sérfræðingar í landgræðslu á landinu komu fyrir atvinnuveganefnd og sögðu: Til þess að geta haldið slíku fram þurfa að fara fram að minnsta kosti rannsóknir á sex sviðum til viðbótar áður en við vitum hvort Hagavatnsvirkjun getur heft sandfok á svæðinu. Það skiptir engu máli, segja þeir, við skulum bara virkja og þá kemur bæjarstjórinn í Árborg á fund nefndarinnar og segir: Ég er hér með hugmynd að æðislegri virkjun við Hagavatn, það heitir jafnrennslisvirkjun. Og maður spyr: Hvað er það? Það er virkjun jökulsár þar sem vatnsborðið er jafnt allt árið. Og þýðir það ekki að virkjunin verði þá vatnslaus helminginn af árinu vegna þess að ef menn ætla að halda vatnsborðinu stöðugu þarf einfaldlega að stöðva virkjunina? Við því komu engin svör.

Málflutningurinn hefur verið með slíkum ólíkindum um sumar þessar virkjanir að það er alveg ótrúlegt að fylgjast með því. En hann hefur opinberað, svo að ég endurtaki það enn einu sinni, algjöra fyrirlitningu þessa fólks á umhverfi og náttúru Íslands. Náttúran á ekki að njóta vafans. Rammaáætlun, eins og ég sé hana, er gríðarleg málamiðlun af hálfu náttúruverndarsinna. Ég er mjög ósáttur við fullt af þeim virkjunarkostum sem eru í nýtingarflokki og fullt af þeim virkjunarkostum sem eru í biðflokki og tel að þeir ættu að fara í verndarflokk. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ná þarf samkomulagi um þetta mikilvæga mál og það skiptir meira máli en mínar persónulegu skoðanir og það skiptir meira máli en persónulegar skoðanir virkjunarsinna. Það skiptir meira máli að þessi svæði séu vernduð fyrir kynslóðir framtíðarinnar en fyrir stundargróða og stundarhagsmuni núverandi kynslóðar.

Það skiptir miklu meira máli en svo að við getum leyft okkur að tala hér um þetta eins og þetta sé bara eins og hver annar sandkassi sem okkur er frjálst að leika okkur í með öllum þeim tækjum og tólum sem til eru.

Ræða formanns Sjálfstæðisflokksins hér áðan var enn eitt dæmi, óábyrg kosningaræða þar sem hann lofaði hjúkrunarfræðingum launahækkunum ef farið yrði í virkjanir í Þjórsá. Hvers konar rugl er þetta? segi ég nú bara.

Maður spyr sig: Er þessu fólki sjálfrátt þegar það talar svona? Hvað er það að fara? Hver er ábyrgðin hjá þessu fólki sem telur sig eiga hér að verma ráðherrastóla og vera jafnvel forsætisráðherra? Þetta er ábyrgðarlaust hjal og á ekki heima á Alþingi Íslendinga.

Þær breytingartillögur sem liggja hér frammi, t.d. frá hv. þingmönnum Sigurði Inga Jóhannssyni og Jóni Gunnarssyni, lýsa líka algjörri fyrirlitningu á rammaáætlunarferlinu öllu sem þeir hafa þó haldið fram fremur öðrum að ætti að vera faglegt. Þar taka þeir fram að það eigi einfaldlega að fara af stað og virkja þessi svæði frekar en að skoða þau frekar. Það á að virkja við Hagavatn þó að allar upplýsingar vanti um það hvað slík virkjun hefur í för með sér. Það á að virkja við Hólmsá þó að upplýsingar vanti um áhrif virkjunarinnar. Það bara á að gera það. Svo koma þessir menn hér og tala um að málin eigi að vera í faglegum farvegi.

Þetta er hræsni og þetta er fyrirlitning á ferlinu líka, ekki bara náttúru Íslands.

Ræður flokksbræðra þeirra hér úr þessum ræðustóli hafa borið þess sama merki.

Það þurfa að verða kynslóðaskipti á Alþingi Íslendinga í næstu kosningum. Vonandi ber þjóðin og það yngra fólk sem býr í landinu gæfu til að velja sér fólk hingað inn sem ber skynbragð á og virðingu fyrir hagsmunum komandi kynslóða sem ber skynbragð á og virðingu fyrir náttúru Íslands en kemur ekki hingað upp og krefst þess að helst verði þúsund gröfum og vörubílum hleypt í einu út á viðkvæma náttúru Íslands.

Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að við eigum tvö einhver mikilvægustu stöðuvötn í öllum heiminum, Þingvallavatn og Mývatn. Við erum að valda umhverfistjóni á Þingvallavatni í þessum töluðu orðum. Við erum að eyðileggja eitthvert merkilegasta vatn í heimi vegna Nesjavallavirkjunar. Við skulum bara horfast í augu við það. Við erum að fara að virkja við Bjarnarflag við Mývatn, hina perluna sem við eigum. Við vitum að afrennslið úr þeirri virkjun mun renna í Mývatn og eyðileggja lífríki Mývatns — en samt á að halda áfram.

Hvað erum við að hugsa? segi ég nú bara þegar við ætlum að krefjast þess svo í framhaldinu að haldið verði áfram að virkja og virkja. Við verðum að staldra við, við verðum að sýna ábyrgð og við verðum að fresta sem flestum virkjunarkostum þangað til að við svörum því sjálf endanlega til hvers (Forseti hringir.) á að virkja.