141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um þetta. Ekki hefur verið staðið við að gera breytingar til að hægt sé að átta sig á framsetningunni. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Það er meira að segja þannig að hv. þingmenn, að minnsta kosti minni hlutans í hv. fjárlaganefnd, hafa oft og tíðum ekki þann aðgang að upplýsingum til að geta áttað sig á því hvað er að gerast.

Hv. þingmaður kom líka inn á athyglisverða hluti sem sneru að svokallaðri kynjaðri fjárlagagerð. Við þekkjum verkin þar hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Samfylkingunni. Þau hafa falist í því, eins og hv. þingmaður benti á og ég hef oft gert hér í ræðustól, að reka konurnar út af heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni. Það sem er dapurlegast við þetta er það að mismunurinn á launum þessara kvenna — sumar höfðu t.d. starfað áratugum saman á E-deildinni á Akranesi sem var lokað árið 2012 — og atvinnuleysisbótum er svo lítill, meðaltalslaunin þar voru rétt um 300 þúsund. Það munar svo litlu að henda þessu fólki út á atvinnuleysisbæturnar. Síðan þarf að halda starfinu áfram, því að verkefnin fara ekkert. Þau koma bara inn seinna og færast til.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því þegar formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, segir: Ég er mjög stoltur af þessum verkum okkar, ég er mjög stoltur af þeim. En þetta eru verkin og þetta veit fólk og sér. Mér finnst menn tala með óábyrgum hætti þegar þeir telja sjálfum sér trú um og reyna að telja öðrum trú um að þeir hafi staðið sig vel. Þegar hæstv. fjármálaráðherra, sem lagði þetta frumvarp fram, tók við embættinu, á gamlársdag eða á nýársdag, tiltók hún hverjar væru helstu áherslur hennar í nýju embætti. Jú, það var kynjuð fjárlagagerð. Það voru helstu markmiðin og helstu áherslurnar. Er hv. þingmaður sammála mér um að þetta hafi algjörlega brugðist hjá hæstv. ríkisstjórn?