141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég ítreka það sem snýr að Íbúðalánasjóði, hvort hv. þingmanni finnist eðlilegt að færa bara vaxtakostnaðinn inn árið 2013 þegar fyrir liggur að að lágmarki verði afskriftaþörf sjóðsins 6 milljarðar kr. og hugsanlega verri. Við þekkjum ástæðuna fyrir því og því vil ég spyrja hv. þingmann um þetta.

Síðan gerði hv. þingmaður vönduð vinnubrögð við fjárlagafrumvarpið töluvert að umræðuefni hér og í andsvörum, sem ég hafna algjörlega. Því vil ég spyrja hv. þingmann um eitt einangrað dæmi sem snýr að tekjuhlið frumvarpsins. Bréf var sent til hv. efnahags- og viðskiptanefndar í lok október um að fara yfir tekjuhluta frumvarpsins og síðan óskað eftir að því yrði svarað eigi síðar en í nóvember. Svarið hefur ekki borist enn og það er ekki búið að fara yfir tekjugrein frumvarpsins. Það urðu miklar umræður um þetta í fyrra og ég gat nú ekki skilið hv. þingmenn, hvar sem þeir stóðu í flokki, öðruvísi en svo að þetta væri hlutur sem mætti ekki gerast aftur. Eigi að síður erum við núna ekki með umsögn um tekjugrein frumvarpsins og hún hefur ekki verið rýnd sérstaklega. Eru þetta að mati hv. þingmanns góð vinnubrögð? Sérstaklega í ljósi þess sem vakti sérstaka athygli mína og ég kem vel inn á í ræðu minni á eftir að nú er hæstv. fjármálaráðherra búinn að dreifa breytingartillögu um frumvarpið þar sem er verið að lækka tekjuhliðina um tæpar 600 milljónir kr. eftir samningalotuna við Bjarta framtíð. Varðandi þau vinnubrögð sem ég lýsi hér sem snúa að tekjuhliðinni og að hæstv. fjármálaráðherra standi í samningaviðræðum við einstaka hv. þingmenn og komi síðan með breytingartillögu eftir að búið er að taka málið út úr hv. fjárlaganefnd. Er hv. þingmaður sammála því að það séu vönduð og góð vinnubrögð og séu til eftirbreytni?