141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:40]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, nú er það þannig að gerð ríkisfjármála og frumvarpsins er auðvitað flókin deigla sem tekur langan tíma og er eðli málsins samkvæmt síbreytileg fram á síðustu stundu, bæði tekjur og gjöld. Verklag má bæta endalaust, ég rakti það hérna áðan hvernig verklagið hefði batnað stórum á síðustu árum, sérstaklega eftir að við útvistuðum safnliðunum og jukum tímann sem þingið hefur til fjárlagavinnunnar á hverju hausti um þrjár vikur. Ég held að það skipti mjög miklu máli að hægt sé að fara af meiri vandvirkni og yfirvegun yfir frumvarpið og það hefur líka skilað sér í umræðunum um það núna í vetur. En auðvitað má tína til dæmi sem mega enn þá betur fara. Auðvitað væri heppilegra ef rýnin og umsögnin um tekjuhliðina hefðu legið fyrir, en það er bara eins og gengur og gerist. Það er ekki við öllu séð og alltaf eitthvað sem má betur fara. En í öllum meginatriðum er fjárlagavinnan núna á þessum vetri eins og á síðustu vetrum vönduð og vandvirknisleg, en við getum alltaf bætt hana. Við getum alltaf bætt verkferlið og gert betur og það má alltaf finna nokkur tilvik á hverju hausti í þessari umfangsmiklu og flóknu vinnu sem mega fara enn þá betur. Þá getum við ekkert gert annað en að draga lærdóm af því og gera enn betur næsta vetur.