143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

lax- og silungsveiði.

198. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, Það fjallar um ábyrgð félagsmanna í veiðifélögum.

Atvinnuveganefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Jóhannsson og Sigríði Norðmann frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga.

Í frumvarpinu er lagt til að nýtt ákvæði bætist við lög um lax- og silungsveiði þar sem kveðið verði á um að félagsmenn í veiðifélagi skuli ekki bera persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum þess. Í ljósi þess að skylt er að eiga aðild að veiðifélagi er talið nauðsynlegt að kveða skýrt á um þetta í lögum en Lagastofnun Háskóla Íslands vann álitsgerð þar sem fram kemur að félagsmenn kunni að bera fulla ótakmarkaða og solidaríska ábyrgð á fjárskuldbindingum veiðifélags samkvæmt gildandi lögum.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögunum hvað varðar tímamörk reglna sem veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem veiðifélög starfa ekki, setja um stangveiði á veiðisvæði sínu. Einnig eru lagðar til lagfæringar á 41. gr. laganna.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að skv. 2. gr. þess verður ekki hægt að ganga að öðrum eignum félagsmanns til greiðslu á fjárskuldbindingum hans en eignarhlut hans í skráðum eignum veiðifélags. Bent var á við umfjöllun nefndarinnar um málið að skýrara væri í því sambandi að vísa til „arðskrárhlutar“ í stað „eignarhlutar“. Nefndin hnykkir hér með á þessu en þingnefndir geta ekki breytt eða lagt til breytingu á athugasemdum eða greinargerðum með þingmálum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir það skrifa hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Kristján L. Möller, með fyrirvara, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.

Fjarverandi voru hv. þingmenn Björt Ólafsdóttir og Páll Jóhann Pálsson.

Virðulegi forseti. Mig langar rétt að koma inn á það sem komið er inn á í nefndarálitinu en talað er um í athugasemdum við þetta lagafrumvarp að samkvæmt því verði ekki hægt að ganga að öðrum eignum félagsmanns til greiðslu á fjárskuldbindingum veiðifélags en eignarhlut hans í skráðum eignum veiðifélagsins. Það má segja að svokölluð arðskrá sem gefin er út hjá veiðifélögum og er endurskoðuð með reglulegu millibili á ákveðnum árafjölda sé í raun hinn eiginlegi eignarhlutur veiðiréttarhafa í þessu veiðifélagi. Það er þess vegna það sem verið er að vitna til þegar talað er um eignarhlut veiðiréttarhafa í skráðum veiðifélögum. Svo að þetta sé áréttað hér með er það skilningur nefndarinnar að um það sé verið að fjalla með þessum hætti.