143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri þáttinn skal ég koma skilaboðunum áleiðis fyrir hv. þingmann.

Hvað varðar seinna atriðið sem snýr að því hvaða fyrirtæki hafa hag af því að gera fríverslunarsamninginn ætla ég að rekja það aftur. Fyrir fyrirtækin þurfum við sem þjóð að hugsa um það að mikilvægasta atvinnugreinin, stærsta atvinnugreinin, sjávarútvegurinn, sem gefur okkur mest af gjaldeyristekjunum, ef horfur á mörkuðum í Evrópu, þangað sem þeir hafa verið að flytja, eru ekki jafn góðar og við fáum hærra verð á mörkuðum meðal annars í Asíu eigum við auðvitað að nýta þau sóknarfæri. Það gefur þjóðinni og okkur sem störfum hér og skipuleggjum, útdeilum fjármunum, setjum á skatta og annað möguleika til að bæta lífskjör.

Til að bregðast við því sem hv. þingmaður segir, að við verðum um of undir einum markaði komin — sem við erum kannski í dag í sjávarútvegi, við erum um of upp á markaði í Evrópu komin varðandi sjávarafurðir og það er að koma í ljós núna — eigum við einmitt að opna á fleiri möguleika. Þessi fríverslunarsamningur opnar einn möguleika. Staðan er auðvitað sú sama, það eru sóknarfæri í Indlandi, það geta verið sóknarfæri í Bandaríkjunum, Kanada, Rússlandi. Menn eru núna að horfa á útflutning á ákveðnum vörum, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði, til Rússlands þar sem verð þar er að verða betra en Evrópa býður til dæmis í sjávarútvegi. Við bregðumst við því sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af, að við förum of djúpt inn í einn samning og verðum of háð honum, með því að vera nógu opin fyrir því að gera fleiri slíka samninga. Við eigum að bregðast við því þegar við getum fengið hærra verð fyrir vörur sem við framleiðum og eru okkur mikilvægar, við eigum að ýta undir það.

Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns en til þess að bregðast við þeim eigum við einmitt að gera fleiri fríverslunarsamninga við fleiri lönd, til að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni.