144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

aldurstakmarkanir í framhaldsskólanám.

[11:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér við gerð fjárlaga var stigið það óheillaskref að loka framhaldsskólum landsins fyrir fólki yfir 25 ára aldri. Í þessu felst grundvallarbreyting í menntastefnu þjóðarinnar sem aldrei hefur verið rædd með tilhlýðilegum hætti á Alþingi. Við vöruðum við því í stjórnarandstöðunni að þetta mundi hafa alvarleg áhrif á framhaldsskóla vítt og breitt um land, sérstaklega á landsbyggðinni. Þar hefur verið lögð sérstök áhersla á að auka menntunarstig og við höfum séð þá gleðilegu þróun að fjöldi fólks hefur leitað eftir framhaldsskólanámi vegna þess að stofnaðir hafa verið skólar í heimabyggð sem hafa gefið fólki færi á því að öðlast framhaldsmenntun án þess að ferðast um langan veg.

Nú er vegið að tilverugrundvelli þessara skóla og fréttirnar streyma inn af erfiðleikunum. Menntaskólinn á Tröllaskaga stendur frammi fyrir vandamálum á næsta hausti. Við sjáum nú þegar mikinn niðurskurð hafinn í Fjölbrautaskólanum í Ármúla og er búist við enn frekari niðurskurði þar næsta haust, og það berast síðan fréttir af Fjölbrautaskóla Snæfellinga þar sem þegar er byrjað að hafna nemendum í stórum stíl.

Þessar fréttir eiga að vera okkur umhugsunarefni, því að við sjáum ekki að stjórnvöld hafi komið fram með neinar aðrar lausnir fyrir þetta fólk sem eru sambærilegar. Með aðgangi að framhaldsskólum gafst fólki færi á því að borga 10–13 þús. kr. í skráningargjöld á hverja önn og afla sér framhaldsmenntunar. Ekkert annað slíkt nám er í boði annars staðar nú. Ég hlýt að spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Getur hann í alvöru forsvarað þessa stefnu í ljósi þeirra staðreynda sem nú liggja fyrir? Og hvernig hyggst hann bregðast við vanda þessa fólks og tryggja því sambærilega(Forseti hringir.) úrlausn og það hefur hingað til notið?