144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

sameining háskóla.

[11:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að ég hef aldrei gert sérstakar kröfur um nákvæmni til hv. þingmanns, haft kannski meira gaman af öðru í hans fari. En það er þó hægt að gera þá kröfu að ekki sé vísvitandi verið að snúa út úr eða fara rangt með. Ég sagði að undirbúningur við skýrslugerð þá sem ég lýsti hefði hafist í haust. Það var algjör óþarfi af hv. þingmanni að reyna að snúa út úr því og segja að þar með hafi hafist undirbúningur að þeirri gagnaöflun sem um er að ræða hvað varðar samstarf þessara skóla, að það hafi hafist í haust. (Gripið fram í.) Þannig að það sé alveg á hreinu. Þar fyrir utan er hér verið að afla gagna til þess að geta lagt mat á möguleika til að styrkja stöðu þessara þriggja skóla sem er erfið vegna þess hversu fámennir þeir eru.

Það er síðan mikið vantraust gagnvart Háskólanum á Akureyri og öllu því merka og mikla og öfluga starfi sem þar fer fram að halda því fram, eða hafa af því áhyggjur á opinberum vettvangi, að með því að þessir þrír litlu skólar sem starfa á mjög afmörkuðum sviðum, (Forseti hringir.) — hv. þingmaður hlýtur að þekkja t.d. til starfseminnar á Hvanneyri og muninn á því sem þar gerist og Hólum og síðan það sem er verið að gera á Akureyri; að með því að styrkja þessa þætti (Forseti hringir.) standi Háskólanum á Akureyri ógn af. Það er rangt og mikið vantraust gagnvart þeirri merku stofnun.