145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta voru vissulega athyglisverð orð sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson lagði hér fram um að skoða þyrfti það að færa að minnsta kosti hluta af þeirri hækkun, 9,7%, sem á að taka gildi 1. janúar á næsta ári til aldraðra og öryrkja til 1. maí eða 1. júní á þessu ári. Þetta er auðvitað skref í rétta átt. Ég tek undir það að mér finnst að við eigum að fresta þessum fundi og fara saman, stjórnarandstaða og stjórn, að skoða þær hugmyndir. Kannski verður hv. þm. Ásmundur Friðriksson sú vonarglæta í myrkrinu hérna að við getum leyst málin. Ég veit það ekki. Eða eru þetta aðeins innantóm orð? Ég ætla ekki að dæma það fyrir fram. En það er líka mjög slæmt ef menn eru að skjóta svona upp í loftið og það eru væntingar og þetta fer út í samfélagið, að þessi hv. þingmaður í stjórnarliðinu vilji þetta og vilji hitt, ef það reynist ekkert innihald fyrir því. Svo það reynir á núna hve sterkur hv. þingmaður er innan síns stjórnarflokks.