145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Öðrum þræði er þetta orðið að umræðu um fríríkið Vestfirði. Ég hef ekki gert upp við mig enn þá hvort ég styð þá ágætisstefnu en hv. þingmaður vísaði til álits samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfjarða og kvartaði eðlilega undan hlut Vestfirðinga.

Það vakti athygli mína þegar ég las nefndarálit meiri hlutans að það er ákaflega rýrt sem þar segir um samgöngumál að öðru leyti en því að talað er um að til þess að hægt sé að greiða atbeina aðgerðum sem þarf að ráðast í á sviði samgöngumála sé það frumforsenda að ríkið minnki vaxtagjöld sín þannig að til verði meira fjármagn til að ráðast í samgöngubætur. Þetta er út af fyrir sig ákaflega skynsamlega mælt en gildir þetta ekki um alla málaflokka?

Það vill hins vegar svo til að í þessu sama meirihlutaáliti er beinlínis viðurkennt að það standi ekkert til að niðurgreiða skuldir. Það kemur okkur ekki á óvart sem tókum þátt í langvinnri umræðu um ríkisfjármálaáætlun. Þar sagði bókstaflega að ekki stæði til að greiða niður nafnverð skulda næstu þrjú árin. Það sama getur maður lesið út úr meirihlutaálitinu víðs vegar þannig að ætla má af nefndarálitinu að fjárfestingarstig hins opinbera haldist óbreytt fram undir og jafnvel yfir 2019. Ég velti því fyrir mér hvort menn hafi áttað sig á hvað felst í þessari yfirlýsingu.

Þarna tel ég að verið sé að segja við landsmenn alveg fullum fetum að ekkert verði gert umfram það sem núna er í gangi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Þegar hún fer heim í hérað og ræðir þá stefnu í samgöngumálum sem birtist í nefndarálitinu, má þá ekki kalla þá stefnu hreinlega sveltistefnu gagnvart landsbyggðinni?