145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að skýra mál mitt, því það er nákvæmlega það sem ég á við hér. Ég er að tala um það sem við getum kallað jákvæða hvata eða stuðning við fólk. Ég nefndi hér dæmi um skerðingu á framfærsluuppbótinni sem mjög margir hafa bent okkur, hv. þingmönnum, á að þurfi að laga, því að sú skerðing dregur algjörlega úr hvata fólks til þess að ná sér í einhver aukaverkefni og vinna lítillega til að bæta tekjur sínar og halda virkni.

Hins vegar er það skoðun mín að við getum gert um margt betur, og ég fór yfir það í ræðu minni í gær, það gafst ekki tími til þess núna, til þess að styðja betur við fólk með kerfinu okkar, að kerfið þjóni fólki en ekki öfugt. Ég nefndi sem dæmi í gær þá staðreynd að það þarf að veita nemendum í framhaldsskólum þessa lands miklu öflugri sálfélagslegan stuðning, því að það eru sálfélagslegar orsakir að baki brottfalls. Það er algengasta orsök brottfalls sem getur síðan getið af sér meiri ógæfu fyrir fólk síðar í lífinu. Ef sá stuðningur væri inni í skólunum mundi vafalaust draga úr (Forseti hringir.) brottfalli og þar með hafa mjög jákvæð áhrif á tilvist þessa einstaklinga, svo dæmi sé tekið.