145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:59]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ástæða fyrir því að vökulögin voru sett á sínum tíma eða árið 1930 ef ég man rétt, það er út af nákvæmlega svona aðstæðum sem við höfum hér þar sem er verið að halda fólki fram eftir öllu og í óvissu um það hvenær það komist heim.

Ég vil líka minnast á það, sem er kannski heldur dramatískt, að svefnleysi er eitt form af pyndingum þannig að við þurfum að fara að fá að komast heim. Ég er orðin dauðþreytt, búin að vera hér í 15 tíma, gott ef ekki 16. Þetta var svona í síðustu viku, þetta var þannig í gær, það var fundað á laugardaginn. Við í minni hlutanum erum alveg tilbúin til að hitta meiri hlutann og ræða málin og reyna að fá einhverjar lyktir í þessum málum en þá koma yfirlýsingar um það frá forsætisráðherra að ekkert slíkt sé til. Það gefur okkur efni til þess að halda jafnvel enn þá lengur áfram. En hins vegar er ástæða fyrir því að vökulögin voru sett.