146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er tekin sú ákvörðun, eða það er lagt til í þessari þingsályktunartillögu, að setja virðisaukaskatt á gistingu og afþreyingu upp í almennt þrep. Ég fagna því. Ég hef talað fyrir því lengi og lagði það reyndar til í því fjárlagafrumvarpi sem ég bar ábyrgð á fyrir árið 2013. Það hefði raunar verið betri tími til að fara í þá aðgerð. En þar með er ég ekki að segja að það sé of seint að gera það núna, langt í frá.

En þetta kom mér á óvart. Auðvitað kom þetta ferðaþjónustunni líka á óvart. Ég var fyrir kosningar á stórum fundum með ferðaþjónustunni og með fulltrúum allra flokka. Ekki einn einasti flokkur talaði fyrir þessari leið nema Samfylkingin. Menn voru spurðir ítrekað, hægri vinstri, og enginn ætlaði að fara þessa leið. Ég var ekki hissa á að þetta kæmi ferðaþjónustunni algerlega í opna skjöldu því að þeir flokkar sem eru núna í ríkisstjórn höfðu alls ekki talað fyrir þessari leið heldur þvert á móti talað gegn henni, að minnsta kosti flokkur hv. þingmanns.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvenær varð þessi stefnubreyting? Sem ég fagna. Ég vil líka spyrja hv. þingmann því að hann segir að fjárframlög til samgöngumála séu bara þokkalega góð að hans áliti þótt hann vildi meira, en þetta eru aðeins rétt um 5 milljarðar kr. þegar ófjármögnuð samgönguáætlun er milli 12 og 15 milljarðar. Það kemur mér á óvart. Væri ekki betra að sleppa því að lækka almenna þrepið niður í 22,5% og nýta ávinninginn af því að setja ferðaþjónustuna í hærra virðisaukaskattsþrep til þess að byggja upp (Forseti hringir.) samgöngur og aðra innviði samfélagsins?