146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:08]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, ég hefði að sjálfsögðu getað nefnt það í ræðu minni um þessar virðisaukaskattsbreytingar og álögur á ferðaþjónustuna. Ég gerði það ekki en þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á að taka það hér til umræðu.

Ég hvet eindregið til þess að í meðförum þingmálsins setjist menn vandlega yfir afleiðingar þess að gera slíka kerfisbreytingu og hvað við vinnum með henni. Ég held að margt mæli með því að fara þá leið. Það mælir líka margt á móti því að fara þá leið að gera þessa kerfisbreytingu. Ég er ekki tilbúinn að segja hér og nú að þetta sé eina rétta leiðin. Hins vegar stöndum við frammi fyrir því, og það er rétt sem hv. þingmaður segir, eða það ekki alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, því að í kosningabaráttunni ræddum við ýmsar gjaldtökuleiðir af ferðaþjónustu. Það var gert. Ég kannast alveg við að hafa tekið þátt í þeirri umræðu, alla vega í þeirri kosningabaráttu sem ég tók þátt í.

Ég sagði að framlög til samgöngumála mættu vera meiri og að vissu leyti gæti ég staðið hér vonsvikinn yfir því að þessi samgönguáætlun sem við höfum oft talað um væri ekki að fullu fjármögnuð. Mér finnst reyndar það ekkert vera slegið út af borðinu. Ríkisstjórnin og hæstv. samgönguráðherra hafa undirbúið og hafið umræður um ýmsar aðrar leiðir til að fjármagna samgönguframkvæmdir sem ekki er þá talað um í fjármálaáætlun að þessu sinni. En þær eru algerlega fyrir hendi. Ég nefndi það líka í ræðu minni að við ættum að horfa á eignasafn ríkisins og athuga með hvaða hætti við getum formbreytt eignum til að sækja fram í samgöngumálum. Það mun þá koma til kasta þingsins í umfjöllun um þingmálið hvernig og hvort við útfærum slíkar hugmyndir.