146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára. Eftir umræðu undanfarinna daga, um fyrsta hlutann í þessum þríleik nýrra laga um opinber fjármál, er það líklega að æra óstöðugan að fara að vitna hér í lögin og það skipulag sem þau búa til utan um fjármál ríkisins. En ekki verður hjá því komist að byrja á því að hnykkja á því til hvers leikurinn er gerður og hvað er fram undan hvað varðar verkferlana.

Þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 er mikið skjal. Þar eru lagðar línur um markmið fyrir afkomu og efnahag hins opinbera í heild og fyrir opinbera aðila. Einnig eru gerðar áætlanir um þróun tekna og gjalda fyrir sömu aðila til næstu fimm ára.

Í áætluninni er gerð grein fyrir stefnumótun ráðuneyta fyrir bæði málefnasvið og málaflokka, og þjónar það því markmiði að Alþingi búi yfir sem greinarbestum upplýsingum þegar það fjallar um fjármálaáætlunina, sem er stefnumarkandi fyrir ríkisstarfsemina í heild til lengri tíma. Í því samhengi er mikilvægt að benda á að sett eru fram markmið, mælikvarðar og aðgerðir fyrir hvern og einn málaflokk sem tilheyrir málefnasviði.

Þetta nýja fyrirkomulag — sem við erum flest að takast á við í fyrsta sinn, og verður væntanlega í fyrsta sinn sem ferlið fer heilan hring, þ.e. að lögð sé fram fjármálastefna, og á grundvelli hennar fjármálaáætlun og loks fjárlög í haust á vegum sömu ríkisstjórnar og þings — er að þessu leyti tímamót.

Frú forseti. Enn er þetta ferli í mótun og slípun. Tímalínan í ferlinu er til dæmis ekki í fullu samræmi við hugsun laganna um opinber fjármál. Skýringuna þekkjum við auðvitað, það voru kosningarnar síðastliðið haust og núverandi ríkisstjórn tók ekki við völdum fyrr en 11. janúar á þessu ári. Lög um opinber fjármál gera hins vegar ráð fyrir að ríkisstjórnir taki að öðru jöfnu við að vori og í kjölfarið, að sumri eða snemma að hausti, sé lögð fram fjármálastefna, síðan komi voráætlunin fyrir 1. apríl og loks fjárlagafrumvarp að hausti sem byggir á þeim römmum útgjalda til málefnasviða sem voráætlunin, sem hér um ræðir, setur.

Það er von að okkur mörgum þyki nokkuð erfitt að fóta sig í þessu nýja kerfi og átta sig á því hvernig allir þessir nýju og mismunandi þættir vinna saman. Ég get alla vega upplýst að svo er um mig sjálfa. Þegar allt er dregið saman og hið nýja verklag verður að fullu komið til framkvæmda er það án vafa til þess fallið að bæta vinnubrögð og yfirsýn í störfum Alþingis þegar fjármál ríkisins eiga í hlut. En við erum ekki bara að tala um nýtt verklag hér í dag. Við erum að tala um pólitískar áherslur í ríkisfjármálum. Heilbrigðismál og velferðarmál voru í fyrirrúmi í málflutningi flestra, ef ekki allra, flokka í aðdraganda kosninganna síðastliðið haust. Sú áhersla skín í gegn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og við vinnu fjármálaáætlunarinnar er forgangsröðun ríkisfjármála í þágu þessara málaflokka greinileg.

Útgjöld til heilbrigðismála aukast mest, 22% að raungildi. Áherslan er á byggingu nýja Landspítalans sem nú loks stefnir í að verði lokið á næstu árum eftir langa og sársaukafulla bið bæði sjúklinga og starfsfólks. Meðal annarra þátta má nefna að dregið verður úr greiðsluþátttöku sjúklinga, aukin áhersla er lögð á geðheilbrigðismál með aukinni sálfræðiþjónustu, m.a. í skólum, og almennt bættu aðgengi að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu. Þá verður fjárfest í öldrunarþjónustu og biðlistar styttir.

Í velferðarmálum er líka um töluverða aukningu að ræða. Alls eru útgjöld til velferðarmála, annarra en heilbrigðismála, aukin að raungildi um 13% á tímabilinu, eða sem svarar 17 milljörðum króna. Þar má meðal annars nefna endurskoðun á örorkulífeyri, aukna fjárfestingu í starfsendurhæfingu og atvinnuúrræðum fyrir öryrkja, einnig innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð, endurskoðun frítekjumarks á atvinnutekjur aldraðra, hækkun fæðingarorlofstekna og aukinn sveigjanleika við starfslok aldraðra.

Við erum líka að tala um styrkingu meðferðarúrræða fyrir börn og unglinga, ákveðnar aðgerðir til að vinna á fátækt barna, tvöföldun móttöku kvótaflóttamanna og almennt betri móttöku þeirra sem koma hingað á eigin vegum og fá hæli. Síðast en ekki síst, markviss skref til að leysa húsnæðisvandann.

Við getum líka nefnt atriði í þessari áætlun sem lúta að auknum fjármunum til samgangna og löggæslu miðað við síðasta kjörtímabil. Þar má vissulega gera meira. En eins og hér hefur verið ítrekað er áherslan lögð á heilbrigðis- og velferðarmál í þessari áætlun.

Í menntamálin er verið að setja aukið fjármagn miðað við síðasta kjörtímabil. Hvað varðar framhaldsskólana er meðal annars gert ráð fyrir fjárhagslegu svigrúmi sem myndast við fyrirséða fækkun nemenda vegna styttingu námstíma til stúdentsprófs. Það er verið að efla háskólana þó þar séum við ekki enn að ná því sem gerist að jafnaði hjá OECD-ríkjum, þegar litið er til heildarframlags, þ.e. ríkisframlags og sértekna skólanna. Þar er nokkurt verk óunnið. Ég ímynda mér að fjármögnun háskólanna verði nokkuð rædd á næstu dögum og það er vel. Meðal þess sem má ræða þar af fullri alvöru eru sameining skóla og endurskoðun á reiknilíkani sem notað er. Í núverandi fyrirkomulagi er hvati til að fjölga nemendum, fækka námskeiðum, einfalda þau og stækka frekar en huga að gæðum og nýsköpun.

Stjórnvöld móta ekki stefnu um það námsframboð sem þau vilja sjá, og þá fjármagna, heldur láta skólunum eftir að spila frjálst úr því fjármagni sem þeir hafa til ráðstöfunar hverju sinni og þá samkvæmt nefndu reiknilíkani. Fyrir vikið er hætta á að dýrasta námið verði skorið niður, óháð þörf fyrir viðkomandi menntun fyrir samfélagið. Ég ítreka þá skoðun mína og ósk að menntamálin verði rædd á næstu dögum og vikum.

Frú forseti. Ég og fleiri hafa komið inn á það hér hversu óvanalegar þær aðstæður eru sem við búum við nú í tengslum við þessa vinnu, með tilliti til knapps tíma. Því til viðbótar er rétt að nefna að til framtíðar þarf að breyta starfsáætlun til að gefa meiri tíma fyrir umræður um ríkisfjármálin að vori í stað þess að þær verði nær eingöngu að hausti í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps.

Að lokum, frú forseti. Þessi áætlun endurspeglar áherslur okkar á að setja velferðina í algeran forgang í ríkisfjármálum. Með henni náum við að efla verulega heilbrigðiskerfið og félagslega þjónustu og skila á sama tíma áætlun til næstu fimm ára sem ætti að styðja við hagstjórnina á þenslutímum og stuðla þannig að vaxtalækkunum, sem er stærsta hagsmunamál heimila í landinu.