149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

skattkerfið og veggjöld.

[13:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræddi ákveðin grundvallaratriði í skattheimtu. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að ég tel að tekjuskattskerfið sé ekki einungis tekjuöflunarkerfi fyrir ríkissjóð heldur líka tekjujöfnunarkerfi. Hv. þingmaður innti mig eftir þeim hugmyndum sem unnið er að og tillögum hvað varðar breytingar á tekjuskattskerfinu og þær snúast einmitt um að auka jöfnuð í tekjuskattskerfinu og koma þannig til móts við lágtekjuhópa og lægri millitekjuhópa. Við lukum fundi fyrir hádegið með aðilum vinnumarkaðarins þar sem við fórum yfir grunn þeirra tillagna sem við vinnum nú að.

Ég er líka í grænum flokki þar sem við aðhyllumst þá hugmyndafræði að þeir borgi sem mengi og það má segja að bensín- og olíugjöld hafi verið slíkur skattstofn hingað til í samgöngukerfi okkar. Þess vegna höfum við staðið fyrir því að þeir sem keyra ökutæki sem nýta umhverfisvænni orkugjafa á borð við rafmagn njóti sérstakra ívilnana.

Nú liggur hins vegar fyrir að þau gjöld munu breytast þannig að ég lít svo á að umræðan um veggjöld sé tvíþætt. Annars vegar er það hvernig við ætlum að hafa fjármögnunarkerfið til lengri tíma. Samgönguráðherra hefur sett niður hóp sem annars vegar skoðar hvernig á að fjármagna samgöngukerfi til lengri tíma og hefur þar á meðal litið til Noregs þar sem veggjöld hafa vissulega verið innheimt og þau verið nýtt til að færa notkun samgangna yfir í umhverfisvænni samgöngur. Það er áhugavert að sjá að þau veggjöld sem hafa verið lögð á í kringum Ósló hafa að 70% leyti runnið í uppbyggingu almenningssamgangna. Hins vegar er það verkefni sem við þekkjum, að inni í þinginu er samgönguáætlun þar sem verið er að bæta verulega í framlög til uppbyggingar, eins og kemur fram í stjórnarsáttmála, en uppi hafa verið hugmyndir um það hvort flýta megi þeim framkvæmdum enn frekar.

Ég ætla bara að segja að ég er opin fyrir því (Forseti hringir.) að skoða breytta fjármögnun en enn hefur ekki verið lokið við beinar tillögur á því sviði. Það er því allt of snemmt að segja til um hvernig þær (Forseti hringir.) munu líta út og þar af leiðandi allt of snemmt að ræða það við aðila vinnumarkaðarins sem hv. þingmaður spyr um.