149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

stuðningur við landbúnað.

[14:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get lítið sagt til um ráðstafanir Matvælastofnunar, hér er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til svara, en það er allt í lagi, mér finnst mest gaman að fá allar fyrirspurnirnar sjálf, ég fagna því að fá þessa fyrirspurn. Ég ætla hins vegar ekki að tjá mig um ráðstafanir Matvælastofnunar því að þar þekki ég ekki til.

En hvað varðar stóru myndina þegar kemur að framtíðarsýn um matvælaframleiðslu á Íslandi get ég tekið undir með hv. þingmanni að við eigum í fyrsta lagi gríðarleg verðmæti í matvælaframleiðslu okkar, hvort sem er í landbúnaði eða sjávarútvegi. Ég tel að þau verðmæti eigi eftir að aukast enn meira. Af hverju segi ég það? Ég held að loftslagssjónarmið spili þar inn í. Við eigum að velta fyrir okkur kolefnisspori matvælanna sem við flytjum inn í landið og hvernig getum við stuðlað að því að við neytum fremur matvæla með minna kolefnisspor en meira. Þetta tengist auðvitað því sem hv. þingmaður nefndi um innflutning á matvælum.

Við eigum líka að horfa á matvælaframleiðslu út frá sjónarmiðum lýðheilsu. Við vitum að stóru áhætturnar fram undan þegar kemur að heilbrigðismálum snúast einmitt um lýðheilsu, lífsstílssjúkdóma, og hvað við erum að borða og hvernig við erum að haga okkur. Þar eigum við líka gríðarleg verðmæti sem við getum aukið enn frekar með því að efla innlenda matvælaframleiðslu.

Ég vil horfa á matvælastefnu fyrir Ísland, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vinnur nú að undirbúningi að, þannig að við séum að taka öll þessi sjónarmið inn í, við séum líka að horfa til nýsköpunar í matvælaframleiðslu og gera aukin verðmæti úr frumafurðunum sem við fáum úr innlendum landbúnaði og innlendum sjávarútvegi og nýta þá miklu þekkingu sem við eigum í nýsköpun og rannsóknum til að skapa aukin verðmæti. Ég vil líka sjá aukna menntun á sviði matvæla því að ég held að við eigum alveg óteljandi tækifæri þegar kemur að því að byggja upp matvælaframleiðslu á Íslandi og fagna öllum þeim stuðningi sem við fáum (Forseti hringir.) við að vinna að því verkefni.