150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

skipunartími ráðuneytisstjóra.

[10:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Það er óumdeilt að þetta er heimilt á grundvelli 36. gr. laganna en það segir reyndar í þeirri grein, með leyfi forseta:

„Flytjist maður í annað embætti eða annað starf skv. 1. og 2. mgr. sem er lægra launað skal greiða honum launamismuninn þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans.“

Vilji löggjafans á þeim tímapunkti virðist því hafa verið í þá veruna að upphaflegi skipunartíminn héldist virkur þar til ný skipun ætti sér stað. Með þessu sýnist mér vera búið að koma á fyrirkomulagi þar sem á haganlegum tíma er hægt að skáka embættismönnum til fyrir lok skipunartíma þeirra og virkja þar með nýjan fimm ára skipunartíma. Það væri áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. forsætisráðherra, hvort hún telji að þetta hafi verið þingviljinn á sínum tíma.