150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

áætlun um lausn Palestínudeilunnar.

[10:54]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ætla ekki að endurtaka hana. Við erum að skoða þessa áætlun og höfum ekki fengið neina sérstaka kynningu á henni frá bandarískum stjórnvöldum. Því er of snemmt að meta einstaka þætti hennar. Eins og hv. þingmaður vísar til virðist hún vera sett án samráðs við annan deiluaðilann sem vekur undrun og fyrstu viðbrögð palestínskra stjórnvalda hafa verið neikvæð. Friðsamleg lausn þessarar deilu væri auðvitað kærkomin en á þessu stigi er ekki ljóst hvort áætlunin sé til þess fallin að stuðla að friði.

Hvað varðar afstöðu íslenskra stjórnvalda er hún óbreytt. Íslensk stjórnvöld hafa gagnrýnt ofbeldi á báða bóga og sömuleiðis landtöku Ísraela sem brýtur í bága við alþjóðalög. Íslensk stjórnvöld hafa um langt skeið kallað eftir tveggja ríkja lausn á deilunni og mest er um vert að friðsamleg lausn náist á grundvelli alþjóðalaga. Á þessu stigi vinnum við að því að greina þessa áætlun og getum því lítið getið okkur til um forsendur hennar en það vekur auðvitað furðu að ekki hafi verið haft samráð við annan deiluaðilann eins og hv. þingmaður vísaði til.