150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

greiðslur til sauðfjárbúa.

[10:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ítrekaða fyrirspurn, fyrst skriflega og síðan munnlega. Gott tækifæri gefst til að ítreka það að ef mönnum þykir ekki vel gert í svari þá kalli þeir eftir frekari skýringum og það er sjálfsagt mál að fara yfir það.

Ég er ekki með þetta svar hér við hliðina á mér en ráðuneytið kemst að þessari niðurstöðu eftir yfirferð um ágæta fyrirspurn þingmannsins. Sjálfsagt liggja til þessarar niðurstöðu í svari ýmsar reglur sem hingað til hafa verið hafðar um útdeilingu þessara styrkja og það er í raun sjálfsagt að endurskoða þær ef tilefni er til. Ég hef þá trú að hvorki bændur né almenningur eða þingmenn hafi nokkurn einasta áhuga á því að láta upplýsingar um ráðstöfun á almannafé liggja í þagnargildi. Það er ekki það, það eru einhverjar aðrar ástæður sem liggja til grundvallar því að ekki er hægt að fullnusta svarið með betri hætti en þingmaðurinn metur. Með vísan til Evrópureglna um þessa styrki geri ég ráð fyrir því að þegar einstaklingar eða fyrirtæki sæki um slíka fyrirgreiðslu liggi það fyrir í reglum að upplýsingar um þau efni verði birtar. Það kann vel að vera að slíkt skorti í regluverk okkar varðandi úthlutun þeirra takmörkuðu gæða sem hér liggja undir.

En út af spurningu hv. þingmanns þá svara ég því til, virðulegur forseti, að ég skal gjarnan fara yfir þetta regluverk með mínu fólki.