150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

greiðslur til sauðfjárbúa.

[11:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem ég met þannig að það hafi verið jákvætt. Ég vil samt ítreka kannski kjarna máls, hvort ráðherrann telji þetta eðlilegt, óháð því hvernig regluverkið er akkúrat þessa stundina, ef það er þessu til fyrirstöðu, sem ég dreg reyndar mjög alvarlega í efa að sé. Ég held að þetta sé fyrirsláttur en ég ætla ekki að fullyrða um það. Aðalatriðið er þá: Mun ráðherrann skoða þessi mál með þeim hætti að hann muni beita sér fyrir þeirri sjálfsögðu upplýsingaskyldu að styrkir af þessu tagi til einstakra aðila verði opinberir líkt og er, eins og ég bendi á, í öllum ríkjum Evrópusambandsins sem rekur umfangsmikla styrkjastefnu? Þar get ég farið í gagnagrunn og flett upp á evru hvað viðkomandi bóndi fær í styrk og til hvaða verkefna. (Forseti hringir.) Ég held að það sé sjálfsagður réttur okkar að hafa sama kerfi þannig að bændum sé veitt aðhald og allir séu upplýstir. Það er, held ég, öllum fyrir bestu.