150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir afar góða umræðu og nefna nokkra punkta í lokin. Það hefur ekki verið nefnt að það kemur fram að ýmsir þættir gætu verið hér á landi sem gera það að verkum að tölurnar fyrir Ísland eru eins háar og raun ber vitni sem hafa ekki verið nefndir hér, hugsanlega eitthvað í menningunni. Svo hefur líka verið nefnt að mikil samþjöppun fólks hér á suðvesturhorninu gæti verið orsakaþáttur að því leyti að þar eru litlar fjarlægðir á milli þeirra sem umönnunarinnar njóta og skyldmenna sem gerir þátttöku í umönnun mun auðveldari. Þetta eru bara vangaveltur og hafa svo sem ekki verið staðfestar með rannsóknum.

Í rannsókn Sigurveigar H. Sigurðardóttur, prófessors við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, kemur fram að þegar karlar verða ellihrumir verður eiginkonan meginumönnunargjafi, eins og svo er kallað, en þegar konur verða ellihrumar veltist umönnun að stóru leyti yfir á börnin og þá aðallega dæturnar, jafnvel þó að eiginmaður sé til staðar. Þetta eru staðreyndir. En við erum með ákveðin greiningartæki. Við erum með kynjaða fjárlagagerð, kynjaða hagstjórn. Við viljum og þurfum að kyngreina öll talnagögn vegna þess að við þurfum að vita hvert er samspil þessarar kynbundnu verkaskiptingar, sem er sannarlega fyrir hendi, og fjöldaþróunar örorkulífeyrisþega sem hér hefur verið nefnd í inngangi og vekur spurningar, en við þurfum enn frekari gögn.

Ég staldra sérstaklega við það sem hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir nefndi hér varðandi þau sem þjónustunnar njóta og það er auðvitað mikilvægast af öllu að fá sjónarmið þeirra líka inn í umræðuna.

Að lokum vil ég nefna mikilvægi rannsókna á þessu sviði og almennt á félagslega sviðinu og greiningu talna til þess að réttar ákvarðanir verði teknar þannig að við sem erum samfélagið, hvort sem er heilbrigðisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, félagasamtök, grasrótarhreyfingar, sveitarfélög o.s.frv., vitum hvert við eigum að beina bæði starfskröftum okkar og fjármagni til þess að treysta stoðir okkar góða samfélags.