150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000 - 2019, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[11:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins fyrir árin 2000–2019. Sú skýrsla sem liggur til grundvallar þessari umræðu er nokkuð umfangsmikil og hún er rúmlega 200 síður en áður en ég kem beint að efni hennar vil ég fara nokkrum orðum yfir sérstaka áherslu stjórnvalda á loðnurannsóknir á þessu kjörtímabili.

Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun fóru fjárframlög til loðnurannsókna úr 351 millj. kr. árið 2017 í 424 millj. kr. árið 2018. Þannig hafa stjórnvöld á þessu kjörtímabili forgangsraðað fjármunum í þágu loðnurannsókna og í samræmi við þetta hefur leit að loðnu aldrei verið jafn víðtæk og umfangsmikil og á síðasta fiskveiðiári. Þannig var m.a. í fyrsta skipti farið til loðnuleitar í samstarfi við Grænlendinga til að leita upplýsinga um orsakir þeirra miklu breytinga sem hafa orðið á loðnunni og útbreiðslu hennar undanfarin ár. Þrátt fyrir þetta gáfu niðurstöður þessara miklu rannsókna ekki tilefni til að hefja loðnuveiðar.

Hinn 13. janúar sl. hófst loðnuleit þessa árs. Leitin var umfangsmikil en alls tóku fimm skip þátt í leitinni. Eins og komið hefur fram hefur hún lítinn árangur borið enn sem komið er, en áfram verður leitað og haldið verður aftur til mælinga í byrjun febrúar. Vonandi ber þetta verk árangur enda miklir hagsmunir í húfi fyrir fólk og fyrirtæki og raunar samfélagið allt. Það yrði mikið högg, m.a. fyrir sveitarfélög líkt og Vestmannaeyjar, sveitarfélögin á Suðausturlandi og á Austurlandi, ef loðnubrestur yrði annað árið í röð.

Virðulegi forseti. Ég vil hefja yfirferð um efni skýrslunnar á umfjöllun um ástand og framtíðarhorfur loðnustofnsins. Síðastliðin 20 ár hefur útflutningsverðmæti loðnuafurða verið á bilinu 3–34 milljarðar kr. Það er því ljóst að loðnan er einn af mikilvægustu nytjastofnum Íslandsmiða þegar vel árar og hún er ekki bara mikilvæg vegna veiðanna heldur er hún einnig stór hluti fæðu margra annarra nytjastofna og því ein af lykiltegundum í vistkerfi Íslandsmiða. Þar sem langstærstur hluti hrygningarstofnsins drepst að lokinni hrygningu í mars samanstendur veiðistofn loðnu að mestu af einum árgangi, þ.e. þriggja ára loðnu. Vegna þess hve lífsferill loðnunnar er stuttur er erfitt að leggja mat á stærð hrygningarstofnsins. Það helgast m.a. af því að matið byggir að mestu á mælingum sem fara fram mánuðina september til október og vikurnar í janúar og febrúar áður en hrygning á sér stað.

Horfur fyrir vertíðina sem nú ætti að vera í fullum gangi hafa ekki verið góðar miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi. Samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar haustið 2019 er hrygningarstofn loðnu einungis metinn um 186.000 tonn og stofnunin hefur gefið út að mjög lítið hafi fundist í nýafstöðnum leiðangri sem lauk í síðustu viku, eins og ég nefndi áðan.

Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150.000 tonnum. Samkvæmt framreikningum mælinganna frá því síðastliðið haust munu viðmið um aflareglu ekki nást jafnvel þótt engar veiðar verði stundaðar í vetur. Vísitala ungfisks var hins vegar sú hæsta síðan árið 2010 og það gefur vonir um að ástand stofnsins gæti farið að skána, að veiðar geti verið leyfðar vertíðina 2020/2021. Það verður því fróðlegt að fylgjast með mælingum Hafrannsóknastofnunar næsta haust.

Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um hugsanleg áhrif loðnu á meðalþyngd þorsks. Margir hafa lýst áhyggjum af áhrifum minnkandi loðnustofns á vöxt þeirra nytjastofna sem éta loðnu. Frá því að mælingar á stærð stofnsins hófust og fram undir aldamót var góð fylgni milli meðalþyngd þorsks eftir aldri í afla fiskiskipa og stærðar loðnustofns hjá algengustu aldursflokkum í veiðinni, þ.e. 4–7 ára þorsks. Þetta hefur breyst, trúlega vegna breytts atferlis og útbreiðslu loðnu í tengslum við breytt umhverfisskilyrði en e.t.v. einnig vegna breytinga í fæðuvali eða fæðuframboði þorsks. Þá getur fleira haft áhrif á meðalþyngd þorsks eftir aldri og afla, svo sem á hvaða árstíma hann er veiddur og e.t.v. einnig í hvaða veiðarfæri. Fæða ungþorsks er töluvert frábrugðin fæðu stærri og eldri fisks sem ræðst að sjálfsögðu af stærð fisksins og því að hann heldur sig að mestu á grunnslóð. Hlutdeild loðnu hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Hlutdeild ljósátu og hlutdeild rækju hafa haldist nokkuð svipuð.

Árið 2015 var tekin upp ný aflaregla við ákvörðun á aflamarki loðnu. Þar er m.a. tekið tillit til afráns þorsks, ýsu og ufsa og loðnu frá því að stofnmælingu á loðnu lýkur og fram að hrygningu. Beitt er svokölluð afránslíkani sem nýtir gögn um áætlaða stofnstærð og dreifingu framangreindra botnfiska, fæðu þeirra og meltingarhraða. Líkanið er látið meta afránið frá þeim tíma sem vetrarmælingum er lokið þannig að spátíminn er yfirleitt frekar stuttur eða innan við tveir mánuðir. Þannig var t.d. á tímabilinu 15. janúar til 15. mars 2018 metið að um 220.000 tonn af loðnu hafi verið étin af þorski, ýsu og ufsa, þar af hafi þorskurinn étið um 150.000 tonn. Þetta varð til þess að ráðlagt aflamark vertíðina 2017/2018 var lægra en sem nam áætluðu afráni enda veiðistofninn lítill. Þannig tekur núverandi aflaregla betur en sú gamla til breytinga í stærð helstu nytjastofna sem nýta loðnu sem fæðu og eykst metið afrán þegar þeir stofnar stækka. Enda þótt núverandi aflaregla sé heldur varkárari en fyrri regla sem ekki tók tillit til óvissu í mælingu stofnsins er ljóst að breyting aflareglunnar er ekki ástæða fyrir minnkandi veiði úr stofninum undanfarna tvo áratugi eða svo.

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um áhrif stækkandi hvalastofna á stærð loðnustofnsins. Hrefnu hefur fækkað mikið á grunnsævi við Ísland en hnúfubak fjölgað að sama skapi og hefur hnúfubakurinn tekið við af hrefnu sem ríkjandi tegund skíðishvala á landgrunni Íslands. Útbreiðsla hrefnu virðist hafa hliðrast norður, langreyði hefur fjölgað mikið við landið en sú tegund heldur sig mest utan landgrunnssvæðisins. Samkvæmt mati frá 1997 var heildarafrán 12 tegunda hvala við landið metið um 6 milljónir tonna á ári. Leiddar hafa verið líkur að því að skiptingin væri u.þ.b. á þann veg: 3 milljónir tonna af krabbadýrum eða átu, 2 milljónir af fiski og 1 milljón tonna af smokkfiski. Séu útreikningar uppfærðir miðað við nýjustu upplýsingar um stofnstærðir og fæðuval hefur afránið í heild aukist og reiknast 7,6 milljónir tonna, þar af 3,3 milljónir tonna í fiski. Stórtækustu afræningjarnir eru langreyður, hrefna og hnúfubakur.

Þótt þessir útreikningar Hafró séu einungis uppfært mat á útreikningum sem gerðir voru 1997 sýna þeir að aukning hefur átt sér stað í áti hvalastofna við landið. Hnúfubak hefur mikið fjölgað á undanförnum áratugum og vísbendingar eru um að hver hnúfubakur éti meira af fullorðinni loðnu en aðrir skíðishvalir og fylgja þeir gjarnan loðnugöngum eftir alveg fram að hrygningu.

Af öðrum afræningjum á loðnu má nefna sjófugla. Á Íslandi verpa 24 tegundir sjófugla en þær tegundir sem helst nýta sér loðnu sem fæðu eru lundi, fýll, langvía, stuttnefja, álka og rita. Litlar rannsóknir hafi verið stundaðar á tengslum sjófugla og loðnu á undanförnum árum en samkvæmt rannsóknum sem birtar voru árið 1997 var talið að sjófuglar éti rúmlega 200.000 tonn af loðnu á ári.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum fjalla stuttlega um hugsanleg áhrif hlýnunar sjávar á loðnustofninn. Síðustu tvö til þrjú ár hefur verið áberandi að yfirborðshiti sjávar á hafsvæðinu við land að vetri hefur verið hærri en árin þar á undan. Ástæða er til að ætla að breytt hitafar og breytt staða skili kaldari sjó úr norðri og leifar hlýsjávar úr suðri á svæðinu norðan og austan landsins hafi áhrif á göngu loðnu á þessum slóðum. Fullorðin loðna sækir æti sitt norður í kaldan sjó Íslandshafs og í Grænlandssundi á sumrin þar sem hún meira en þrefaldar þyngd sína og fitnar. Á haustin gengur hún til baka upp á íslenska landgrunnið og ber þangað orku af norðlægum slóðum. Enda þótt ekki sé hægt að fullyrða um áhrif hlýnunar sjávar á stærð loðnustofnsins eru vísbendingar í þá átt að tengsl séu þar á milli. Sýnt hefur verið fram á að dreifing ungloðnu sem og fullorðinnar loðnu er ólík því sem var allt frá því að rannsóknir hófust á áttunda áratug síðustu aldar og fram undir aldamót. Breytingar á útbreiðslunni gætu þannig verið ástæða þess að minna af loðnu virðist komast á legg en áður sem skilar sér í minnkandi veiðistofni. Sjá má af gögnum frá Hafrannsóknastofnun að samhliða hlýnuninni sem hófst upp úr miðjum tíunda áratug síðustu aldar minnkaði meðalstærð stofnsins sem og veiðin. Þetta endurspeglast síðan í veiðinni en síðastliðinn aldarfjórðung hefur ársafli loðnu verið mjög sveiflukenndur, þrisvar sinnum farið yfir milljón tonn og þrisvar sinnum verið undir 100.000 tonnum, þar með talið síðastliðið ár þar sem engin loðna var veidd.

Ef borin er saman meðalveiði áranna 1980–2000 og síðan 2000–2015 sést glögglega hversu miklar breytingar hafa átt sér stað varðandi veiðina. Þannig breyttist meðalafli úr rúmlega 900.000 tonnum á ári á fyrrgreindu 20 ára tímabili í rétt rúmlega 300.000 tonn síðustu 15 árin. Enda þótt sveiflur séu í afla bæði tímabilin tel ég að þessar tölur sýni að loðnustofninn hafi átt erfitt í þeim hlýindum sem komið hafa fram í hafinu norðan Íslands undanfarinn aldarfjórðung.

Það er ljóst að rannsóknir á loðnustofninum og tengslum loðnunnar við aðrar lífverur í hafinu umhverfis Ísland hafa verið allt of takmarkaðar. Til að efla þær rannsóknir sem og vöktun á stærð stofnsins ákvað Alþingi að veita auknum fjármunum í verkefnið árin 2018–2022. Það er von mín að sú innspýting í rannsóknir nái á komandi árum að auka þekkingu okkar á stofninum og að við náum að skýra ástæður þess að loðnustofninn, þessi mikilvæga auðlind þjóðarinnar, hafi átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum.