150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000 - 2019, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[13:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur vissulega farið víða og margt gott sem hefur verið sagt og sett fram. Mér finnst þó skorta ákveðna festu í því í umræðunni hvar við viljum sem einstaklingar eða þjóð stilla okkur af í samkeppni við aðra þætti í lífríkinu við nýtingu náttúrugæða. Við erum í samkeppni í þeim efnum um loðnuna við hvali, fugla, fiska og liggur fyrir að okkar bestu vísindamanna mati að fugl er að taka meira en við tókum úr stofninum, fiskurinn sömuleiðis og hvalirnir enn meira. Ef við horfum á þetta gerast svona eins og þetta er þá væri því að jafna við það að Íslendingar fjölguðu bara skipum og ykju sóknina í það litla sem eftir væri. Það er ekkert að gerast. Við styðjumst í þeim efnum við rannsóknir og af því að hér var kallað eftir því að við styddumst við ráð bestu vísindamanna hverju sinni þá gerum við Íslendingar það og stöndum þjóða fremst í rannsóknum á þessum fiski. Ég vil bara minna á að það hafa aldrei verið settir meiri fjármunir til rannsókna á loðnu en gert er akkúrat um þessar mundir en vissulega gætum við nýtt meiri fjármuni til þess að rannsaka samspil lífkerfisins í heild. Það er vissulega eðlilegt og gott og knýjandi að svo verði gert.

Ég vil nefna varðandi umræðuna um afkomu byggðanna — já, vissulega. Sjávarútvegsráðuneytið hefur engin úrræði í þeim efnum. Þetta er byggðamál, þetta er fjármál, tengist sömuleiðis innviðum eins og skóla-, heilbrigðismálum, vegasamgöngum o.s.frv. (Forseti hringir.) Þetta þarf miklu stærri aðkomu en þá að eitthvert eitt ráðuneyti geti borið það ef þetta ætti að fara til þess verks, ef við töpum seinni hálfleik í leitinni að loðnunni líka. (Forseti hringir.) Við töpuðum fyrri hálfleik sem lauk um síðustu helgi, seinni hálfleikur fer fram í febrúar.