150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.

299. mál
[13:31]
Horfa

Flm. (Arna Lára Jónsdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir það óvænta tækifæri að fá að flytja þingsályktunartillöguna mína sem ég lagði fram í haust. Það var ánægjulegt að sjá nafnið mitt á skjánum í morgun þegar ég mætti til vinnu en ég hugsaði jafnframt um hvernig vinnufyrirkomulagið er á þinginu. Það er oft ekki mikill undirbúningur sem fólk hefur en það gleður mig mikið að ég fái tækifæri til að flytja hana sjálf af því að ég er akkúrat stödd á þinginu þessa dagana.

Þessi tillaga til þingsályktunar snýst um gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar og er á þá leið að Alþingi álykti að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að setja Súðavíkurgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi á samgönguáætlun 2020–2034, að gert verði ráð fyrir göngunum í aðgerðaáætlun fyrir tímabilið 2020–2024 og að þegar verði hafnar rannsóknir og undirbúningur að gerð ganganna. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um framvinduna fyrir árslok 2020.

Með þingsályktunartillögunni fylgir greinargerð þar sem færð eru rök fyrir málinu og mikilvægi þess að það fái fram að ganga. Eins og þingheimur hlýtur að átta sig á er vegur um Súðavíkurhlíð eini vegurinn níu mánuði ársins á milli norðanverðra Vestfjarða og annarra landshluta þar sem ekki er fært hina leiðina yfir vetrartímann. Súðavíkurhlíð er verulegur farartálmi þegar veður eru válynd og vegirnir lokast. Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra setji Súðavíkurgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar á samgönguáætlun en það vill svo til að samgönguáætlun er einmitt til umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þannig að ég myndi segja að tillagan kæmi fram á góðum tíma.

Mig langar að benda á að Alþingi samþykkti 12. október 2016, á 145. löggjafarþingi, þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018 þess efnis að veita skyldi fjármagn til að hefja undirbúning og rannsóknir á Súðavíkurgöngum á árunum 2017 og 2018 en ekkert hefur gerst í þeim efnum. Það harma ég mjög af því að ég hefði haldið að þegar Alþingi er búið að samþykkja eitthvað ætti það að ná fram að ganga. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með að ekkert hafi gerst í þessum efnum. Þetta mál er nefnilega ekki flutt hér í fyrsta sinn. Fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, flutti mál þessa efnis nokkrum sinnum enda er brýnt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga að koma þessum göngum á. Þau eru ekki bara brýn út frá byggðasjónarmiði heldur er þetta líka stórt öryggissjónarmið. Á Súðavíkurhlíð eru skilgreindir 22 snjóflóðafarvegir og eru fjölmörg dæmi um snjóflóð og grjóthrun í hlíðinni. Vegagerðin og Snjóflóðasetur Veðurstofunnar fylgjast vel með öllum hættumerkjum og hafa gefið út viðvaranir og lokað hlíðinni ef svo ber undir.

Ég heyrði í íbúa Súðavíkur í morgun og bað hana að kíkja á símann sinn. Hún hefur fengið yfir 30 SMS frá Veðurstofunni bara í janúar um einhver hættumerki, að hlíðin sé lokuð, það sé óvissuástand eða hreinlega hættuástand. Okkur telst til að í tíu eða jafnvel tólf daga hafi hlíðin verið lokuð — bara í janúar, sjáið til. Við erum öll glöð þegar þessum mánuði lýkur af því að hann er búinn að vera afar erfiður með tilliti til veðurs. Staðan er samt sem áður sú að þessi hlíð er verulegur farartálmi. Það eru ekki bara snjóflóð heldur er hún ekki síst mjög hættuleg þegar kemur að grjóthruni. Við eigum því miður dæmi um að grjóthrun hafi valdið verulegu tjóni. Þegar ég fór að hugsa um það í morgun rifjaðist upp að við vorum afar lánsöm fyrir tveimur árum þegar fullur bíll af menntaskólanemum keyrði á bjarg og valt. Sem betur fer lifðu allir af en það hefði getað farið mjög illa.

Þess vegna er þetta ekki bara byggðasjónarmið, þetta er líka grafalvarlegt öryggismál sem ber að taka alvarlega. Við þekkjum þessar hlíðar vel. Bolungarvíkurgöng sem voru gerð til að við losnuðum við Óshlíðina, eins og margir þekkja, voru líka tekin svolítið út fyrir sviga út frá öryggissjónarmiðum af því að þau voru ekki bara samgöngubót og byggðamál heldur líka öryggismál. Mig langar að nefna að núna er verið að framkvæma töluvert á Súðavíkurhlíðinni. Þar er verið að setja niður stálþil, snjóflóðaskápa o.s.frv. og ég bið ykkur, ágætu þingmenn, að hugsa hvort þeim peningum sé vel varið, hvort ekki væri nær að fara strax í göng. Við gerðum þetta einmitt á Óshlíðinni. Við settum upp svokallaða vegskála og stálþil sem öryggismál. Svo varð niðurstaðan að betra væri að fara í göng þannig að ég velti því upp hvort við förum vel með peninga þarna, hvort ekki væri betra að ráðstafa þeim beint í göng af því að við höfum lært af því hvað varðar Bolungarvík. Bolungarvíkurgöngin hafa gjörbreytt lífi okkar Vestfirðinga, það er gjörbreyting á lífi okkar. Það mun líka gerast með þessum göngum þegar þau verða að veruleika. Ég er það bjartsýn og trúi því að þau verði að veruleika. Fyrsta skrefið er að koma þeim á samgönguáætlun og það er það sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á.

Þá má líka benda á að allir vöruflutningar með dagvöru fara í gegnum Súðavík og Súðavíkurhlíð til norðanverðra Vestfjarða. Við lendum oft illa í því þegar við erum með flutningabíla fasta í Súðavík og þeir komast ekki með dagvöruna inn á Ísafjörð. Það hefur áhrif. Við erum líka með mikla matvælaframleiðslu á norðanverðum Vestfjörðum og við erum með ferskan fisk sem er mikið á vegum landsins. Það getur orðið tjón af því þegar vöruflutningabílar komast ekki leiðar sinnar.

Fyrir utan það sem er kannski mikilvægast er að íbúar Súðavíkur sækja alla sína grunnþjónustu til Ísafjarðar, heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu o.s.frv. Börn sækja meira og minna allar frístundir inn á Ísafjörð. Þó að rekinn sé mjög metnaðarfullur grunnskóli og leikskóli í Súðavík sækja börnin frístundastarfið inn á Ísafjörð þannig að mjög mikið mælir með þessum göngum. Þó að ég hafi fært rök fyrir því að þetta sé aðallega öryggismál eru byggðasjónarmiðin líka mikils virði. Ég held að þessi samfélög muni vinna betur saman og eiga meiri samleið þegar samgöngurnar verða greiðari og þegar bæði börn og fullorðnir geta átt greiða leið þarna á milli alla daga ársins.

Mig langar að lokum að hvetja þingheim til að standa með þessari tillögu. Þetta er án efa hættulegasti vegur landsins og ef ekki væri fyrir þessa góðu vakt Snjóflóðaseturs Veðurstofunnar held ég að við yrðum vitni að mjög alvarlegum slysum. Sem betur fer erum við með mjög góða snjóflóðavakt sem fylgist með þessu. Margir mælar á hlíðinni mæla snjóflóð en þeir mæla náttúrlega ekki grjóthrun sem er ekki síður hættulegt á þessari hlíð.

Mig langar aðeins að lesa upp úr greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Yfir vetrarmánuðina er vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp helsta samgönguæð íbúa á norðanverðum Vestfjörðum. Nokkrar úttektir hafa verið gerðar á síðustu árum um mögulegar úrbætur á leiðinni um Súðavíkurhlíð. Hér er einkum vísað í „Greinargerð vinnuhóps um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur“ frá nóvember 2002 …“

Í niðurlagi „Greinargerðar um mat á hættu vegna snjóflóða og grjóthruns á vegum milli Súðavíkur og Bolungarvíkur“ kemur fram að það séu tvöfaldar árlegar dánarlíkur þeirra í umferðinni sem ferðast um þessa hlíð. Það verður að teljast óviðunandi miðað við þær forsendur sem við höfum í samgöngumálum almennt. Við erum líka að reyna að gera norðanverða Vestfirði að einu atvinnu- og búsetusvæði og er þetta mikilvægt mál í því skyni. Margir sækja vinnu úr Súðavík inn á Ísafjörð og svo frá Ísafirði til Súðavíkur og í rauninni frá Flateyri til Súðavíkur o.s.frv. þannig að við erum eitt atvinnu- og búsetusvæði en það getur verið hættuför að ferðast um þessa hlíð. Líkt og hér hefur verið farið yfir myndu þessi jarðgöng fela í sér brýna samgöngubót fyrir íbúa Súðavíkur og íbúa á norðanverðum Vestfjörðum öllum. Það á náttúrlega ekki síst við yfir vetrartímann.

Nú óska ég eftir því við hæstv. forseta að þingsályktunartillögunni verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar til frekari umfjöllunar.