150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:15]
Horfa

Flm. (Ásgerður K. Gylfadóttir) (F):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað. Ég er 1. flutningsmaður tillögunnar en meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Þórarinn Ingi Pétursson, Hjálmar Bogi Hafliðason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Willum Þór Þórsson. Þessi tillaga er ekki löng en er mjög mikilvæg þrátt fyrir að hún láti ekki mikið yfir sér. Hún hljómar þannig að Alþingi álykti að fela forseta Alþingis að skipa starfshóp um Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað. Starfshópurinn verði skipaður einum þingmanni úr hverjum þingflokki. Starfshópurinn endurskoði þingsköp Alþingis og skili tillögum að breytingum til forsætisnefndar Alþingis eigi síðar en í árslok 2020.

Í greinargerð tillögunnar er óskað eftir því að það sé skoðað hvernig starfsaðstæður kjörinna fulltrúa séu á Alþingi en það er markmið þingsályktunartillögunnar að leita leiða til þess að Alþingi verði fjölskylduvænni vinnustaður. Í því skyni er nauðsynlegt að leggja til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis svo að þingmennska megi vera á færi allra, óháð kyni, búsetu og fjölskylduaðstæðum.

Árið 2009 skipaði þáverandi forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, starfshóp þingmanna um fundarskipulag og fundartíma Alþingis. Hlutverk hópsins var að stuðla að því að Alþingi yrði enn fjölskylduvænna með því að fara yfir fundarskipulag þingsins í því skyni, einkum þá fundartíma þingfunda, nefndarfunda, þingflokksfunda o.fl. Árið 2011 voru gerðar breytingar á þingsköpum Alþingis, m.a. um lengd þingfunda, sem miðuðu að því að gera starfsemina fjölskylduvænni.

Það hefur því ýmislegt verið gert. Það er ekki svo langt liðið frá árinu 2009 og ýmislegt hefur breyst en enn má gera betur. Ef við skoðum í 21. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er kveðið þar á um að atvinnurekendur skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera öllum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Þessar ráðstafanir eiga samkvæmt lögunum að miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífsins. Í lögunum er kveðið á um að fyrirtæki og stofnanir með 25 eða fleiri starfsmenn setji sér jafnréttisáætlun.

Alþingi hefur sett sér metnaðarfulla jafnréttisáætlun samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem sérstakan kafla er að finna um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Jafnréttisáætlunin nær þó einungis til starfsmanna þingsins en ekki kjörinna fulltrúa. Færa má rök fyrir því að hver þingflokkur sé sjálfstæður vinnustaður og jafnvel að hver þingmaður sé sjálfstæður vinnustaður. Þingsköp Alþingis skapa ramma um starfsumhverfi þingmanna og með breytingum á þeim má ná því markmiði að gera Alþingi að fjölskylduvænni vinnustað sem henti sem flestum.

Hér er ekki verið að leggja til aukinn frítíma til að dingla sér úti í bæ og annað slíkt, alls ekki. Lagt er til að ramminn sé skoðaður, bæði fundartími, hvernig skipulag funda er o.fl. Það er alls ekki innifalið í því að verið sé að búa til einhvern aukafrítíma.

Það má segja að samsetning þingmanna endurspegli svolítið að við erum ekki alveg í takt við tímann. Það er yngra fólk á þingi í dag sem vill nýta tímann meira með fjölskyldu sinni. Það vill hafa meira skipulag á tíma sínum til þess að geta skipulagt fjölskyldustarf sitt. Ég tel að með því að skoða þessi mál sé hægt að koma meira til móts við þann hóp og gera fleirum kleift að stunda þingmennsku, að gefa kost á sér til starfa á Alþingi. Á þessu byggir þessi tillaga til þingsályktunar og vænti ég þess að hún fái, í kjölfar þess að ég mæli fyrir henni hér, umræðu í forsætisnefnd og vonandi koma tillögur til úrbóta í framhaldi af því.