150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:26]
Horfa

Flm. (Ásgerður K. Gylfadóttir) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka brýninguna frá þingmanninum. Ég tel jákvætt að tillagan sé komin á dagskrá og að þessi umræða fari fram hér. Þegar tillögunni var útbýtt fór af stað umræða í fjölmiðlum sem fólk greip og sagði: Já, meira frí og fleiri kokteilboð, sem er algjörlega ekki mjög fjölskylduvæn starfsemi og sem ekki er verið að tala um hér. (Gripið fram í.) Tali hver fyrir sig, hver og einn ræður hvernig hann ver sínum tíma. En það batnar með því að fá fjölbreyttari hóp inn á þing þar sem er fólk á öllum aldri með alls konar fjölskylduaðstæður, að ég tali nú ekki um sem á hin ýmsu áhugamál og getur þá sinnt þeim líka. Reyndar erum við ekki að ræða það hér heldur skipulag þingstarfanna og hvernig við getum fengið betri framleiðni, nýtt þingmanninn betur, að við hvert og eitt getum unnið starfið betur.

Ég þakka brýninguna. Ég vona að umræðan haldi áfram, verði góð og skili okkur áfram veginn. Það hefur ýmislegt gerst, þingið hefur tekið skref en við megum ekki stoppa og segja að við séum bara á góðum stað því að samfélagið er að breytast og við verðum að taka skrefið með því.