150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:38]
Horfa

Flm. (Ásgerður K. Gylfadóttir) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það var gaman að hlusta á hv. þm. Brynjar Níelsson koma með annan vinkil inn í þessa umræðu. Það er kannski akkúrat það sem við þurftum og líka frábært ef þetta verður til þess að það verður umræða í þingflokkunum sem skilar ákveðnum hlutum. Kannski þarf lítið að gera, ég veit það ekki. Kannski er kynslóðin sem tekur við losaraleg og þarf ramma sem sumir hafa innbyggðan. Það er líka svolítill munur á því í hversu stórum þingflokki viðkomandi þingmaður situr. Það er mikill munur á þingflokkunum átta sem eru núna á þinginu.

Umræðan er til alls fyrst og þingmaðurinn kom svolítið inn á það að umræðan í þingflokkunum geti skilað skynsamlegri breytingu á þingsköpum.

Ég beini ekki spurningu til þingmannsins heldur er gott að fá annan vinkil inn í umræðuna. Óháð skilgreiningu á vinnustað eða ekki vinnustað sinnir fólk hér störfum fyrir samfélagið á launum og að sjálfsögðu er það landið allt og kjördæmið sem er okkar vinnuveitendur. Vinnustaðurinn er ekki bara inni í þessu húsi. Það er líka ágætt að hafa rammann þannig að fólk geti sinnt verkefnum hingað og þangað og úti um allar trissur og hitt kjósendur sína, endurnýjað umboðið, spjallað við þá og fundið þau verkefni sem þarf að vinna og séð hvaða sýn fólk hefur á þau. Það er það sem ég vildi tala um við þingmanninn.