150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:49]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ljúkum oftast á skikkanlegum tíma í þessum sal. Við erum hér rétt rúmlega hálft ár. Mér finnst það ekki stóra málið. Þó að það séu oft kvöldfundir og á ákveðnum tímum jafnvel inn í nóttina er sjaldnast hver einasti þingmaður í þeirri umræðu heldur bara örfáir. Ég reikna með að þeir séu teljandi á fingrum annarrar handar. Ef ég væri ekki á forsetastóli væri ég hér kannski tvö, þrjú kvöld á önn. Það er ekki meira, og það er minna en ég var í fyrri störfum.

Ég get tekið undir að hugsanlega væri hægt að skipuleggja nánar og betur starfið í þessum sal þannig að menn kæmust heim klukkan fjögur eða hálffimm eins og flestir aðrir en það verður ekki gert nema að taka ákveðin réttindi af þingmönnum. Hingað til hefur ekki náðst samstaða um það og það hefur verið mjög óvinsælt. Meðan það næst ekki sitjum við uppi með þetta starf eins og það er og mér finnst það mjög hentugt að mörgu leyti, sérstaklega fyrir fólk með fjölskyldur því að þetta er sveigjanlegra en ef ég ynni sem embættismaður hjá ríkinu og væri fastur þar. Mér finnst þetta bara nokkuð gott.